„Menn eru mjög fastir hver á sínum haug“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari heldur áfram að reyna að gera tillögur …
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari heldur áfram að reyna að gera tillögur í kjaradeilu kennara. mbl.is/Árni Sæberg

Áfram verður fundað í kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara og ríkisins hjá ríkissáttasemjara í dag. Samninganefndir hafa fundað í vikunni um tæknilegar útfærslur sem snúa eingöngu að framhaldsskólakennurum og segir ríkissáttasemjari þau samtöl hafa gengið ágætlega.

„Það hefur haldið áfram í þessu sama samtali og við höfum verið með í gangi alla vikuna. Það gengur misjafnlega á milli daga, en það er samt lifandi, það er ekki dautt,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Ekki hefur enn verið boðað til sameiginlegs fundar samninganefnda leik-, grunn- og tónlistarkennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en síðast var fundað í kjaradeilunni á mánudag. Þá þótti ríkissáttasemjara ekki tilefni til að boða nýs til fundar að svo stöddu.

Ástráður segir fólk þó alltaf vera að tala saman, en hann hitti til að mynda samninganefndir kennara í gær og samninganefnd sveitarfélagana í vikunni. 

„Þá gerist ekki neitt“

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær kennara ekki ætla gefa eft­ir kröfu um for­sendu­ákvæði, sem fel­ur í sér upp­sögn á kjara­samn­ingi, hugn­ist þeim ekki staðan á eða út­kom­an úr þeirri virðismats­veg­ferð sem lagt er upp með í inn­an­hústil­lögu rík­is­sátta­semj­ara.

Þá gera þeir einnig kröfu um meiri inn­spýt­ingu en 20 pró­sent launa­hækk­an­ir sem eru nú í boði á samn­ings­tím­an­um.

Inga Rún Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, hef­ur hins vegar sagt að sveit­ar­fé­lög­in hafi teygt sig eins langt og þau geti hvað varðar launa­hækk­an­ir til kenn­ara. Jafn­framt að sveit­ar­fé­lög­un­um hugn­ist ekki hafa for­sendu­ákvæði jafn snemma á samn­ings­tím­an­um og kenn­ar­ar gera kröfu um

„Það eru þarna sjónarmið sem eru andhverf og er erfitt að samræma. Menn eru mjög fastir hver á sínum haug,“ segir Ástráður.

En hvað gerist þá?

„Þá gerist ekki neitt.“

Hvað gerir maður eins og þú þá?

„Ég er búinn að vera að reyna að gera tillögur og ég er ekki hættur því, en maður verður að reyna að búa til forsendur fyrir því að það séu líkur til að tillagan skipti máli og geti hreyft við málum. Ég held áfram að skoða það.“

Vilja breytingar á innanhústillögunni

Ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu í kjaradeilunni í lok janúar, sem hefði verið ígildi kjarasamnings hefðu allir aðilar samþykkt hana. Þar var lagt upp með að deilan um jöfnun launa á milli markaða yrði leyst með virðismati á störfum kennara.

Ríki og sveitarfélög samþykktu tillöguna, en ekki kennarar. Þeir eru tilbúnir að fara virðismatsleiðina, með ákveðnum skilyrðum, en gera kröfu um að forsenduákvæði sé flýtt og að meiri innspýting sé sett í launahækkanir á samningstímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert