„Aðdragandinn að þessu er sá að við gerðum samning við ríkið um að sinna ýmsum verkefnum og eitt þeirra verkefna er að sinna stafrænni útgáfu á Íslendingasögunum, við fengum fjármagn til þess,“ segir Óttar Kolbeinsson Proppé, verkefnastjóri hjá Almannarómi, í samtali við mbl.is.
Almannarómur þessi er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar samkvæmt samningi þar um við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Frá þessu segir á heimasíðu Almannaróms og sjaldan lýgur hann að því er máltækið hermir.
Var samningur um verkefnið sem Óttar talar um undirritaður í dag og er viðsemjandi Almannaróms Saga forlag. Sú stafræna útgáfa Íslendingasagna sem stendur fyrir dyrum verður öllum opin og notendaviðmótið nýstárlegt og fjölbreytilegt að sögn Óttars.
„Þarna verða mjög ítarlegar texta- og orðskýringar auk mynda sem við kaupum réttinn á líka,“ segir verkefnastjórinn frá og er þegar spurður hvort texti verksins verði með samræmdri stafsetningu fornri.
„Nei, þessi útgáfa verður með nútímastafsetningu, en vinnan við útgáfuna er töluverð og það er í raun hún sem við erum að kaupa þarna til þess að geta birt þetta á netinu loksins,“ svarar Óttar.
Aðspurður kveður Óttar hugmyndina að vefútgáfu sagnanna fornu hafa komið upp í ráðuneytinu þar sem hann starfaði í tvö ár áður en hann færði sig yfir til Almannaróms. „Þessi hugmynd kviknaði þar og ég held að það sé óhætt að segja að fyrrverandi menningarmálaráðherra, Lilja Dögg [Alfreðsdóttir], sé mikil áhugamanneskja um Íslendingasögurnar og þennan forna arf og það var hennar einskæri vilji að gera menningararfinn aðgengilegri,“ útskýrir Óttar.
Segir hann ráðuneytið þannig hafa leitað til Almannaróms með verkefnið og verði að teljast viðeigandi þar sem það fjalli sannarlega um íslenska tungu í stafrænum heimi, „jafnvel mikilvægustu texta íslenskrar tungu“, segir Óttar og bætir því við að líklega sé óhætt að segja að Íslendingasögurnar séu ekki í eins mikilli tísku nú og þær voru á sínu blómaskeiði í útgáfu og lestri almennings. Bætt aðgengi að þeim gæti kveikt nýja neista með bókaþjóðinni í norðri.
„Þetta er bara liður í þeirri stafrænu þróun sem er í gangi og ég held að það sé bara þjóðþrifamál að koma þjóðararfinum á stafrænt form og ekki bara Íslendingasögum, ég held að það þurfi að fara að horfa á þetta á miklu fleiri sviðum,“ segir Óttar ótrauður.
Mikið verk sé fram undan við netútgáfu Íslendingasagna sem unnið verði í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar. „Við erum komin í mjög gott og mikið samtal við hóp fólks innan Árnastofnunar þar sem ekki bara eru okkar helstu sérfræðingar í handritum og sögunum heldur einnig okkar fremstu sérfræðingar í máltækni,“ heldur Óttar áfram.
Bendir hann á að þetta samstarfsverkefni Almannaróms og Sögu forlags sé ekki rafbók í þeim skilningi heldur sé þarna verið að búa til vefútgáfu af bók, „jafnvel með möguleika á tilheyrandi appi svo það er dálítið óplægður akur hvernig við stillum þessum sögum upp á rafrænu formi og þar eru ótal möguleikar og tækifæri í því hvernig við útbúum textann, til dæmis með tilliti til útlendinga sem gætu lesið textann á íslensku og kallað fram textaskýringar á ensku“, segir verkefnisstjórinn.
Aðspurður segir hann þó ekki farið að hilla undir útgáfudagsetningu enn sem komið er. „Við munum byrja á því að gefa út eina sögu og sjá hvernig tekst til, hvort það hitti í mark sem við reynum að gera með þeirri útgáfu. Við höfum verið að ræða að byrja á Laxdæla sögu og, hvað eigum við að segja, í lok þessa árs, eigum við að stefna á það til að byrja með,“ segir Óttar Kolbeinsson Proppé, verkefnisstjóri hjá Almannarómi, að lokum um væntanlegan þjóðararf Íslendinga á stafrænu og aðgengilegu formi með skýringum og fjölda annarra þátta sem – ef allt gengur að sólu – mun auka veg Íslendingasagna á meðan moldir og menn lifa.