„Öllum mikið áfall og veldur óhug“

Jón Páll Haraldsson, er skólastjóri í Laugalækjarskóla.
Jón Páll Haraldsson, er skólastjóri í Laugalækjarskóla. Samsett mynd/sisi/Margrét Þóra

Jón Páll Haraldsson, skólastjóri í Laugalækjarskóla, hefur sent bréf til foreldra þar sem þeim er tilkynnt um að skotvopn hafi fundist á þaki skólans í gærkvöldi eftir árshátíð í Laugardalshöll. Hann segir nemendur hafi haft beint samband við lögreglu í kjölfar fundarins. Jón segir atvikið mikið áfall og valdi óhug.    

Engin skotfæri fundust

„Hér þarf ég að flytja ykkur mjög óhugguleg tíðindi sem koma aftan að okkur öllum. Eftir farsæla árshátíð í Laugardalshöll héldu nemendur skólans heim í háttinn. Í góða veðrinu skruppu nokkrir nemendur upp á þak skólans. Þó það sé ekki beint í leiðinni heim eða leyfilegt í neinum skilningi þá gerist það reglulega að krakkar klifri þar upp.

Á afviknum stað uppi á þakinu ráku krakkarnir augu í poka sem þeim fannst ekki eiga heima þar. Í ljós kom að í pokanum var eitthvað sem þau töldu vera skotvopn, sem hefur nú verið staðfest. Krakkarnir höfðu strax samband við lögreglu sem kom á svæðið og tók vopnið. Engin skotfæri fundust,“ segir m.a. í bréfi Jóns Páls.

Vopnið fannst á þaki skólans eftir að nemendur höfðu prílað …
Vopnið fannst á þaki skólans eftir að nemendur höfðu prílað þar upp. Af vef Reykjavíkurborgar

Getur ekki tengt við neitt í skólastarfinu 

„Þetta er okkur öllum mikið áfall og veldur óhug. Fyrir mitt leyti get ég þó ekki með nokkru móti tengt þetta við eitt né neitt í skólastarfinu undanfarna mánuði,“ segir Jón Páll sem jafnframt hvetur foreldra að ræða málið við börn sín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert