Stórhættulegir vegir og fólk búið að fá nóg

Bæjarstjórn Grundafjarðarbæjar kallar eftir aukafjárveitingum fyrir neyðaviðgerðir á ýmsum stofnvegum …
Bæjarstjórn Grundafjarðarbæjar kallar eftir aukafjárveitingum fyrir neyðaviðgerðir á ýmsum stofnvegum á Vesturlandi. Ljósmynd/Tómas Freyr Kirstjánsson.

„Við bara getum ekki sætt okkur við það að vera með ástand veganna þannig að fólki stafi hætta af þeim,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar. Bæjarstjórn bæjarins hefur lýst yfir þungum áhyggjum vegna síversnandi og hættulegs ástands þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi.

Þá kallar Björg eftir að Alþingi samþykki neyðarfjárveitingar á þessu ári svo að verstu kaflar veganna verði lagaðir.

Fer bara i hringi

Í samtali við mbl.is segir Björg bæjarstjórn Grundarfjarðar hafa ályktað oft vegna ástands veganna en einnig hafi það verið gert sameiginlega með sveitarfélögum á Vesturlandi og á Snæfellsnesi.

„Við erum búin að vera að hamast í þessu svo lengi og þetta fer einhvern veginn hring eftir hring eftir hring.“

Samgönguáætlun fyrri ríkisstjórnar var lögð fram um mitt árið 2023 og gerði ráð fyrir farið yrði í framkvæmdir á vegunum 2024. Áætlunin hlaut hins vegar ekki framgang í þinginu og með stjórnarslitum, kosningum og nýju fólki segir Björg enn einn hringinn vera að byrja þar sem samgönguáætlunin verði ekki tekin fyrir á þingi fyrr en í haust.

„Það þýðir það að ef allt gengur vel á haustþingi þá hefst framkvæmdaráætlun árið 2026.“

Bæjarstjórinn segir ástandið á vegum vera enn verra en í …
Bæjarstjórinn segir ástandið á vegum vera enn verra en í fyrra. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

Litlar fjárveitingar til Vesturlands

Segir Björg að þó að því fylgi mikið kvalræði að þingið virðist ekki geta klárað samgönguáætlunina og sett stefnu um hvernig eigi að úthluta fjármunum sé hún, liggur við, hálffegin. Bendir hún á að annað sem bæjarfélagið hafi einnig bent á sé hvað Vesturland fái litlar fjárveitingar til stofnvega miðað við önnur svæði landsins.

Í Facebook-færslu Bjargar, sem finna má neðst í fréttinni, bendir hún á að Vesturland fái aðeins 700 milljónir í fjárveitingar samkvæmt áætluninni af rúmum 44 milljörðum. Þess ber að geta að gert er ráð fyrir að Suðurland hljóti 18,8 milljarða. Einnig má benda á að af þessum 44 milljörðum eru fjárveitingar til höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness ekki taldar með.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar. Ljósmynd/Aðsend

Bílar verði óökufærir á vegunum

Segir Björg vegina stórhættulega og að fólk verði fyrir fjárhagstjóni við að keyra þá. Dæmi séu um að fólk þurfi að láta sækja sig vegna þess að bílar þess verði óökufærir á vegunum.

Hefur það þau áhrif að sumir einfaldlega treysta sér ekki lengur til að keyra vegina og eru því dæmi um að læknisferðum hafi verið frestað.

„Við erum bara gjörsamlega búin að fá nóg,“ segir bæjarstjórinn.

Hræðilegt í fyrra og enn verra núna

Hún segist hafa lagt til að Vesturland hljóti neyðarfjárveitingu á þessu ári til þess að laga vegina, að minnsta kosti þá verstu. Hún segir ekkert benda til að ástandið muni batna á þessu ári.

„Þetta var hræðilegt í fyrra og þetta er enn þá verra núna og við erum svona korteri frá því að þessir vegir verði dæmdir ófærir.“

Hún kallar ástandið dæmigert vorástand. Um sé að ræða frostskemmdir, frostlyftingar, brotna vegkanta og veikt undirlag auk bikblæðinga, sem hún segir vera óvenjuslæmar í ár.

„Og það er alveg athugunarefni af hverju það er að gerast.“

Dæmi eru um að bílar verði óökufærir á vegunum og …
Dæmi eru um að bílar verði óökufærir á vegunum og fólk þurfi að láta sækja sig. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson.

Miklu alvarlega en fólk gerir sér grein fyrir

Þá segir Björg að þeim starfsmönnum Vegagerðarinnar, sem fá það verkefni að laga vegina, sé í raun vorkunn.

„Vegna þess að þeir hafa úr ákveðnu fjármagni að spila og það er ekki ákveðið af þeim sem þurfa svo að standa í þessum framkvæmdum hér á okkar svæði. En þeir þurfa einhvern veginn að láta þetta passa og það er bara ekki meira til. Þá þarftu að vera með einhverjar handabakaaðferðir til að gera við þessa vegi og setja ofan í holur vitandi það að þetta muni ekki halda vegna þess að undirlagið er svo veikt,“ segir Björg og heldur áfram.

„Á mjög mörgum köflum er viðhaldið búið að vera svo vanrækt að vegirnir eru orðnir ónýtir. Þetta finnst mér svo slæm meðferð á fjármunum, á eigum ríkisins og á eignum landsmanna. Við viljum vekja athygli á því að þetta er miklu alvarlegra heldur en fólk gerir sér grein fyrir.“

Fundað með ráðherra og erindi sent til Samgöngustofu

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi funduðu á miðvikudaginn með Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar sem farið var yfir ástandið og áherslur.

Einnig hefur bæjarstjórinn sent erindi til Samgöngustofu þar sem óskað er eftir áliti á því hvort kröfum um öryggi samgöngumannvirkja sé fullnægt á þjóðvegum 54 og 56, Vatnaleið á Snæfellsnesi, á norðan- og sunnanverðu Snæfellsnesi, og að Borgarnesi.

Ljósmynd úr safni íbúa á Snæfellsnesi

Áhætta á stórslysum

Hún segir að bæjarfélagið muni nú reyna að nýta tímann vel á næstunni til að halda samtalinu áfram og beita sér af fullu afli til að vekja athygli á málinu.

Hún ítrekar að lokum að samþykkja verði aukafjárveitingar í neyðarviðgerðir á vegunum. Mikið sé í húfi.

„Þingið verður að samþykkja aukafjárveitingar í neyðarviðgerðir á þessum vegum eigum við ekki að lokast hér inni og eigi ekki að verða hér stórslys.“

Hér að neðan má sjá Facebook-færslu Bjargar og einnig Grundarfjarðarbæjar þar sem sjá má myndir af ýmsum vegum Vesturlands.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert