Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Framsóknar, neitar að tjá sig í tengslum við viðvarandi ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla, sem Morgunblaðið greindi frá á mánudag.
Segist hún gera það sökum aðstæðna, en sem kunnugt er standa yfir viðræður um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn.
Árelía, sem er þó eftir sem áður formaður ráðsins sem skólinn heyrir undir, vísar þess í stað á samskiptastjóra borgarinnar, þ.e. einn af tíu upplýsingafulltrúum Reykjavíkur miðað við tölur sem Morgunblaðið fékk uppgefnar í lok árs 2023.
Ráðherra málaflokksins og sömuleiðis umboðsmaður barna hafa á undanförnum dögum tjáð sig um vandann við Morgunblaðið og mbl.is, auk aðstoðarskólastjóra sjálfs skólans.
Hermann Austmar, faðir stúlku í sjöunda bekk í skólanum, hefur furðað sig á því að skóla- og frístundasvið borgarinnar segist ekki kannast við ofbeldis- og eineltisvanda í skólanum til margra ára.
„Við erum búin að vera með börn í skólanum í sjö ár og öryggi þeirra hefur aldrei verið tryggt,“ sagði Hermann í samtali við mbl.is í gær.
„Það er fjarstæðukennt að segja þetta,“ sagði hann í gær, um svör skólayfirvalda í borginni.
Hefur hann krafið borgina um afsökunarbeiðni.
Eins og áður sagði greindi Morgunblaðið á mánudag frá umfangsmiklum ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla meðal nemenda í 7. bekk. Ofbeldið er andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Dæmi eru um að börn þori ekki í skólann.
Foreldrar sem Morgunblaðið ræddi við hafa síðustu ár reynt að vekja athygli yfirvalda á vandanum í von um að gripið verði almennilega í taumana. Þar má m.a. nefna barnavernd, umboðsmann barna, skóla- og frístundasvið borgarinnar og mennta- og barnamálaráðuneytið.
Eitt foreldrið hefur tekið dóttur sína úr skólanum. Mörg segjast hafa íhugað þann möguleika. Hermann segist hafa reynt að flytja dóttur sína um skóla í nokkur ár en hann fengið þau svör að ekki séu laus pláss í þeim skólum sem hann óskaði eftir.
Aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla viðurkenndi í samtali við Morgunblaðið að börnin hefðu þurft að glíma við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu samnemenda sinna.
Sagði hann að úrræði stæðu skólum í Reykjavík til boða en að langir biðlistar væru þó þar til trafala. Æskilegt væri ef sérskólar gætu tekið við fleiri nemendum, eða að fleiri slíkir skólar væru til staðar.
Morgunblaðið og mbl.is sendu fyrirspurn á skóla- og frístundasvið borgarinnar í tengslum við umfjöllunina. Í svari sviðsins kom fram að það kannaðist ekki við að vandamálið hefði verið viðvarandi í mörg ár.
„Ekki er vitað hvað átt er við með þeirri fullyrðingu sem þessi fyrirspurn felur í sér um eineltis- og ofbeldisvanda til margra ára,“ sagði í svarinu.