„Við komum ekki aflanum í burtu“

Böðvar vandar Vegagerðinni ekki kveðjurnar.
Böðvar vandar Vegagerðinni ekki kveðjurnar. Mynd í safni

Ásþungi þungaflutninga verður takmarkaður verulega á Vestfjarðavegi í dag vegna bikblæðinga og hættu á slitlagsskemmdum.

Þungaflutningar eiga því bara þann kost í stöðunni að fara krókaleið sem myndi stórauka kostnaðinn og er því nær ótækt að flytja fiskafurðir frá sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum meðan á þessu stendur.

Vegagerðin sendi í gær frá sér skilaboð um að þungatakmarkanir yrðu á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni að Djúpvegi 61 við Þröskulda. Í dag klukkan 12 verður ásþungi takmarkaður við sjö tonn.

Ferðatíminn eykst um rúmlega tvær klukkustundir

Böðvar Sturluson, verkstjóri hjá Fjarðaleið, segir í samtali við mbl.is að nú þurfi þungaflutningar að fara krókaleið sem valdi því til dæmis að ferðatíminn frá Vesturbyggð eykst um rúmlega tvær klukkustundir.

„Það á að takmarka umferð á morgun frá hringveginum um Bröttubrekku vestur í gegnum Dali að afleggjara yfir Þröskulda. Sem gerir það að verkum að umferð frá norðanverðum Vestfjörðum þarf að fara um Strandir á Holtavörðuheiði en umferð frá sunnanverðum Vestfjörðum – þar sem ég er með minn rekstur á Patreksfirði – er háð ferðum Baldurs og eða keyra um Strandir og Holtavörðuheiði til Reykjavíkur,“ segir Böðvar.

Kostnaðurinn of mikill

Hægt er að flytja fisk með Baldri en hann fer hins vegar ekki á laugardögum.

Kostnaðurinn við krókaleiðina er svo mikill að það tekur því ekki að fara og því þarf að beina skipum að landa annars staðar.

„Frá og með deginum í dag þá komumst við ekki á sunnanverða Vestfirði nema taka þennan langa krók, eða bíða til sunnudags eftir Baldri. Staðan er þannig að ég var núna að vísa bát frá mér sem ætlaði að landa afla á Tálknafirði vegna þess að hann kemur í land eftir að Baldur er farinn yfir fjörðinn. Þessi bátur þarf að landa í Ólafsvík í staðinn vegna þess að við komum ekki aflanum í burtu,“ segir Böðvar.

Gagnrýnir Vegagerðina

Óljóst er hversu lengi þetta er í gildi en líklega verður þetta svona þar til það kólnar og frystir aftur.

Böðvar segir að Vegagerðin þurfi að skoða alvarlega hvað valdi ítrekuðum skemmdum á klæðningum á veturna.

„Það er eitthvað mjög sérstakt í gangi í þessum fræðum hjá Vegagerðinni. Það er ekki hægt að skýla sér endalaust á bak við veðráttu og að efni sem áður voru í notkun – white spirit – séu ekki lengur í notkun. Það séu lífræn efni sem eru notuð núna í þessar klæðningar. Þetta veldur stórtjóni á stóru bílunum og eiginlega öllum bílum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert