Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir húsnæðis- og skipulagsmál hafa verið skoðuð á fundi oddvitana sem eru að reyna meirihlutamyndun í dag og mikill samhljómur hafi verið í hópnum.
„Þetta hefur bara gengið virkilega vel, við erum búin að vera að síðan klukkan níu í morgun og höfum kallað til okkar fólk og sérfræðinga og skoðað hvernig við getum gert þetta sem best,“ segir Heiða Björg í samtali við mbl.is.
Það er mat Heiðu að góður andi sé í hópnum og segist hún vona að samstarfið verði öllum til góðs.
Hafa ágreiningsefni á milli flokkana verið tækluð á byrjunardögunum?
„Já, við bara tökum þetta eftir málaflokkum og ef við erum ekki sammála um eitthvað þá ræðum við það bara. Núna í dag vorum við að ræða skipulagsmál, húsnæðisuppbyggingu og það gekk bara virkilega vel.“
Ertu vongóð að myndað verði stjórnarsamstarf fyrir borgarstjórnarfund á þriðjudaginn?
„Sko við erum ekki með neina tímasetningu, við viljum bæði flýta okkur af því að okkur finnst það okkar ábyrgðarhluti en við viljum líka vanda okkur. Þannig að við höfum ákveðið að gefa þessu eins mikinn tíma og við getum, við viljum ekki setja okkur einhverja tímapressu.“
„Þetta er mikilvægt mál, Reykjavíkurborg er stórt og mikið fyrirtæki og við viljum gera raunhæfar og góðar áætlanir.“
Aðspurð segir Heiða fundarhöld koma til með að halda áfram um helgina.
„Það liggur á, íbúar eiga það skilið að við flýtum okkur og vöndum okkur líka.“