Vonar að rannsóknin afmái öll tengsl við skólann

Jón Páll Haraldsson, skólastjóri Laugalækjarskóla.
Jón Páll Haraldsson, skólastjóri Laugalækjarskóla. Ljósmynd/Kennarasamband Íslands

Skólastjóri Laugalækjarskóla telur að skotvopn sem nemendur fundu á þaki skólans veki óhug langt út fyrir skólann. Rætt var við nemendur í hádeginu í dag sem hann segir hissa og „sjokkeraða.“

„Ég frétti af þessu í morgun og þá fór maður strax að velta því fyrir sér hvað maður mætti segja og hvað maður yrði að segja við foreldra. Ég fékk því upplýsingar um það hjá lögreglu hvað væri í gangi og hér eru allir í sjokki svo það sé sagt hreint út,“ segir Jón Páll í samtali við mbl.is.

Ræddu við nemendur 

Hann segist eiga erfitt með að tengja fundinn á skotvopninu við nokkuð sem gerst hefur í skólanum á síðastliðnum mánuðum eða árum.

Nemendur í Laugalækjarskóla eru í 7.-10. bekk og segir Jón Páll að rætt hafi verið við þá um hádegisbilið til að upplýsa þá um það sem vitað er um málið.

„Ég vona bara að nemendum verði haldið utan við þetta í fjölmiðlum, en þau eru jafn hissa og sjokkeruð og hinir fullorðnu,“ segir Jón Páll.

Vekur óhug langt út fyrir skólann 

Hann segir enga handbók sé til staðar til þess að fara yfir málin þegar slíkt kemur upp.

„Það eru engir ferlar til staðar um nákvæmlega svona mál en ég er handviss um að þetta muni vekja mikinn óhug meðal barnaskóla og foreldra langt út fyrir Laugalækjarskóla. Umræðan verður tekin í kjölfarið en ég veit ekki hvert sú umræða mun leiða okkur. Ég vona bara að rannsókn lögreglu upplýsi þetta mál. Vonandi afmáir hún öll tengsl við skólann og að hann hafi verið notaður sem felustaður fyrir eitthvað sem tengist skólanum ekki neitt,“ segir Jón Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert