Bjó til nýyrðið „bítill“

Dr. Þorbjörn Broddason kenndi lengi fjölmiðlafræði og stóð fyrir rannsóknum …
Dr. Þorbjörn Broddason kenndi lengi fjölmiðlafræði og stóð fyrir rannsóknum á fjölmiðlum við Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Jæja, Þorbjörn minn. Hér hefur þú smíðað nýyrði.“ Eitthvað á þessa leið sagði Gylfi Gröndal ritstjóri Alþýðublaðsins þar sem hann stóð yfir ungum blaðamanni á ritstjórninni.

„Nú, er það?“ svaraði blaðamaðurinn, Þorbjörn Broddason að nafni.

„Já, já, enginn hefur áður kallað popphljómsveitina vinsælu The Beatles Bítlana. Þú hefur búið til nýyrðið „bítill“. Mjög vel gert.“

Þorbjörn var á þessum tíma nýgræðingur í faginu; réð sig til starfa á Alþýðublaðinu sumarið 1963, strax að loknu stúdentsprófi, og vann þar fram á haustið 1964, að hann hélt utan til Edinborgar í framhaldsnám. „Mér þótti blaðamennska spennandi og fór að hitta Gylfa Gröndal en hann var þá að taka við Alþýðublaðinu. Hafði áður verið ritstjóri Vikunnar. Í því samtali álpaðist ég til að upplýsa Gylfa um að ég væri góður í stafsetningu en hefði betur látið það ógert. Hann setti mig nefnilega fyrir vikið beint í að lesa prófarkir. Ég var sem sagt ekkert í dramatískri rannsóknarblaðamennsku eða að eltast við slys eða stórbruna. Sat bara við skrifborðið og las prófarkir.“

Þorbjörn við ritvélina á Alþýðublaðinu fyrir rúmum 60 árum.
Þorbjörn við ritvélina á Alþýðublaðinu fyrir rúmum 60 árum.

Ekki var það þó fullt starf. Þorbjörn var líka settur í innblaðið. „Ég bar ábyrgð á þeim hluta blaðsins en þetta var mest erlent slúður sem ég þýddi upp úr norrænum blöðum. Þetta var léttmeti sem þótti ómissandi enda poppaði það blaðið upp. Mest var þetta skraf um fólk sem ég þekkti lítið sem ekki neitt og meðal þess efnis sem rak á fjörur mínar var hver fréttin á fætur annarri um fjóra unglinga frá Liverpool sem voru að gera allt vitlaust í Bretlandi og víðar með tónlist sinni.“

Hlýtt til Bítlanna

Þorbjörn var ekki vel að sér um popptónlist en gerði sér eigi að síður grein fyrir mikilvægi þess að flytja reglulega fréttir af hljómsveit þessari, The Beatles. „Einhvern tíma á þessum vetri hugkvæmdist mér að finna íslenskt nafn á þessa ágætu menn og kalla þá Bítlana. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri nýyrði en get gengist við þessu, vegna orða Gylfa. Geri aðrir tilkall til orðsins þá er það mér hins vegar alveg að meinalausu.“

Bítlarnir í jólaskapi árið 1964.
Bítlarnir í jólaskapi árið 1964. AFP

 – Varstu búinn að máta einhver önnur orð á undan?

„Nei, nei, mér fannst þetta bara liggja beint við.“

Orðið fór eins og eldur í sinu um samfélagið og festi sig á undraskömmum tíma í sessi. Og lifir enn góðu lífi, meira en sex áratugum síðar. Bítlaæðið var þarna í algleymingi og orðinu skeytt framan við alls konar hluti, til varð bítlahljómsveit, bítlahár, bítlaskór, bítlafár og þannig mætti lengi telja. Og svo auðvitað bara bítl. Ekki er betur vitað en að hljómsveitin heiti bara The Beatles í öllum öðrum löndum. 

Nánar er rætt við Þorbjörn um Bítlana og blaðamennskuna á Alþýðublaðinu fyrir meira en 60 árum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert