Börn vistuð í fangaklefum: „Algjörlega óboðlegt“

Umboðsmaður barna segir aðstöðuna í Flatarhrauni óviðunandi fyrir börn.
Umboðsmaður barna segir aðstöðuna í Flatarhrauni óviðunandi fyrir börn. Samsett mynd

Börn allt niður í 13 ára eru neyðarvistuð við óboðlegar aðstæður á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, að mati umboðsmanns barna. Dæmi eru um að börnin séu vistuð í fangaklefum í tvo sólarhringa, þar sem þau sofa á þunnum plastdýnum með teppi.

„Við erum búin að skoða þetta og þetta er algjörlega óboðlegt. Þetta eru bara fangaklefar, það eru ekki sængur og koddar þarna eða umbúin rúm, þetta eru bara klefar,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í samtali við mbl.is.

Neyðarvistun barna hefur farið fram á lögreglustöðinni frá því í október síðastliðnum, eða í kjölfar þess að álma fyrir neyðarvistun á meðferðarheimilinu Stuðlum, gjöreyðilagðist í bruna.

„Þetta hefur verið gert í gegnum tíðina í einstaka tilfellum, en við höfum alltaf mótmælt því. Nú er þetta orðið eitthvað sem er gert meðvitað. Stundum hefur þetta verið gert í neyð af lögreglunni og við höfum verið ósátt við það,“ segir Salvör.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, vill að tafarlaust verði hætt að …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, vill að tafarlaust verði hætt að vista börn á lögreglustöðinni í Flatahrauni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður Alþingis með málið til skoðunar

Það vakti töluverða athygli þegar Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, greindi frá því í samtali við mbl.is í lok október, að nýta ætti aðstöðu á lögreglustöðunni undir neyðarvistun. Sagði hann að verið væri að undirbúa rýmið svo hægt væri að taka þar á móti börnum og unglingum. 

Umboðsmaður barna gagnrýndi strax þessa ráðstöfun og þann 12. nóvember sendi hún bréf til ráðherra, þar sem meðal annars kom fram að aðstæður á lögreglustöðinni væru með öllu óviðunandi fyrir börn.

Þá kom Afstaða, fé­lag fanga og annarra áhuga­manna um bætt fang­els­is­mál og betr­un, þeirri ábendingu á fram­færi við umboðsmann Alþing­is, að félagið teldi að um væri að ræða brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Umboðsmaður og starfsfólk OPCAT-teymis tóku í kjölfarið út aðstöðuna og er málið í athugun hjá embættinu.

„Það má ekki vista börn í fangaklefum“

Umboðsmaður barna fékk svör frá barna- og menntamálaráðuneytinu þann 9. desember, eða eftir síðustu alþingiskosningar, en þá hafði Ásmundur Einar látið af embætti ráðherra. Í bréfinu voru áhyggjur umboðsmanns af aðstöðunni hins vegar ekki ávarpaðar og í bréfi sem sent var til nýs ráðherra þann 3. febrúar síðastliðinn harmar umboðsmaður barna það skeytingarleysi. 

Þá átti Salvör fund með Ásthildi Lóu Þórsdóttur, barna- og menntamálaráðherra, í síðustu viku þar sem hún viðraði áhyggjur sínar af stöðu mála.

„Við ræddum þessa stöðu við nýjan ráðherra í síðustu viku og lögðum jafnframt fram svar við bréfi ráðuneytisins og ítrekum að við séum algjörlega mótfallin því að veriði sé að nota Flatahraun. Það kom skýrt fram á fundinum,“ segir Salvör.

„Við viljum að það sé hætt að vista börn þar strax. Það er algjörlega óboðlegt að vera með börn þarna. Það má ekki vista börn í fangaklefum.“

Ný álma ekki tilbúin fyrr en eftir ár

Eftir brunann á Stuðlum í október síðastliðnum, þar sem 17 ára piltur lést og álma fyrir neyðarvistun gjöreyðilagðist, var ákveðið að stúka af hluta af meðferðardeildinni undir neyðarvistun. Sem fer því nú að hluta til fram á Stuðlum og að hluta til í Flatahrauni.  

Í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði sagði Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, að gert væri ráð fyrir að endurbygging álmu fyrir neyðarvistun á Stuðlum tæki rúmt ár. 

Framkvæmdir munu því væntanlega standa yfir út árið 2025, en verið er að hanna rýmið upp á nýtt svo það þjóni starfseminni betur, að sögn Funa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert