„Dreymdi mig þetta?“

Kristjana hitti páfann um síðustu helgi ásamt fríðu föruneyti
Kristjana hitti páfann um síðustu helgi ásamt fríðu föruneyti Ljósmynd/Aðsend

„Frans páfi er mjög góður maður og réttsýnn. Við fengum að hitta hann, sem var mikil upplifun. Ég er enn aðeins að klípa mig og spyr mig: „Dreymdi mig þetta?“ segir myndlistarkonan Kristjana S. Williams en sýning á verkum hennar verður opnuð á bókasafni Vatíkansins í dag, laugardag.

Kristjana mætti um síðustu helgi á foropnun ásamt þrjú hundruð manns; listamönnum, ráðamönnum bókasafnsins og fleiri tignum gestum; sá tignasti var sjálfur páfinn

„Þetta var mjög afslappað og rólegt. Við fórum inn í stofu sem er í vistarverum hans og settumst þar. Hann kom svo þangað inn og við spjölluðum saman í tuttugu mínútur. Ég gaf honum mynd eftir mig. Við fengum svo öll að taka í höndina á honum og hann gaf okkur svo talnabönd,“ segir Kristjana.

Tölvupóstur barst Kristjönu einn góðan veðurdag frá Páfagarði. Í honum var hún beðin um að búa til verk fyrir bókasafn Vatíkansins ásamt tveimur öðrum listamönnum. Kristjana segist hafa lesið póstinn nokkrum sinnum því hún trúði vart sínum eigin augum og vildi vera viss um að þarna væri ekki gabb á ferð.

Kristjana sækir innblástur til nítjándu aldar. Verk hennar eru gjarnan …
Kristjana sækir innblástur til nítjándu aldar. Verk hennar eru gjarnan mjög ævintýraleg.

Mun standa í heilt ár

„Við fengum tölvupóst frá einum presti þarna sem var búinn að sjá verkin mín og vildi búa til þessa sýningu í bókasafninu. Hann vildi opna safnið meira fyrir almenningi og vildi nota tækifærið vegna afmælishátíðar og taka fyrir tísku, list, tónlist og upphefja hluti sem fyrir eru í safninu,“ segir Kristjana, en sýningin En Route, sem þýða mætti Á ferð, mun standa yfir í heilt ár og er samstarfsverkefni milli bókasafns Vatíkansins og listamannanna Kristjönu, Mariu Grazia Chiuri, sem er listrænn stjórnandi hjá Dior, og ítalska poppsöngvarans Jovanotti. Þema sýningarinnar er „Pílagrímar vonarinnar“, en þar eru ferðalög fyrri tíma skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og til þess er notuð myndlist, tónlist, tíska og mannkynssaga.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert