„Ekkert sem er að hindra vinnuna“

Oddvitar flokkanna fimm sitja á fundi í Ráðhúsinu.
Oddvitar flokkanna fimm sitja á fundi í Ráðhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Góður gangur er meirihlutaviðræðum oddvita Samfylkingar, Flokk fólksins, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalista. 

Þetta segir Sigrún Einarsdóttir verkefnastjóri við mbl.is en hún er tengiliður flokkanna við fjölmiðla.

Oddvitarnir hittust á fundi í ráðhúsinu snemma í morgun og segir Sigrún að stefna þeirra sé að funda til klukkan 16 í dag. Þeir muni síðan hittast aftur á morgun. Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hvenær viðræðunum ljúki.

„Þessu miðar vel áfram og viðræðurnar ganga vel. Það er ekkert sem er að hindra vinnuna og ekkert sem á að geta komið í veg fyrir að oddvitarnir nái samkomulagi um að mynda meirihluta,“ segir hún.

Sigrún segir að húsnæðis- samgöngu og skipulagsmál séu helst til umræðu í dag ásamt fleiri málum borgarinnar. Hún segir að rætt hafi verið við fjölmarga sérfræðinga og starfsfólk Reykjavíkurborgar en að ekki sé farið að ræða stólaskipan.

„Það er verið að leggja áherslu á forgangsröðunina og verkefnin áður en farið verði að ræða um skipan í embætti,“ segir hún.

Spurð hvort það komi til greina að ráða utanaðkomandi í stól borgarstjóra segir hún: „Það hefur ekki komið til tals.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert