Flokkur fólksins til Persónuverndar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjósandi í Suðurkjördæmi hefur sent Persónuvernd erindi þar sem beðist er rannsóknar á því hvort persónuvernd hafi verið brotin á kjósendum í kjördæminu í nýliðnum kosningum með afhendingu kjörskrár til annarra aðila en fullgildra stjórnmálaflokka.

Það er hagfræðingurinn Erna Bjarnadóttir, fv. varaþingmaður Miðflokksins og aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtakanna, sem sendi erindið til Persónuverndar.

Erna vísar til ákvæðis í 31. gr. kosningalaga, þar sem segir að eftir að kjörskrá er tilbúin sé þeim stjórnmálasamtökum, sem bjóða fram lista við kosningar, heimilt að óska eftir rafrænum aðgangi að kjörskrá hjá Þjóðskrá.

Stjórnmálasamtökum er heimilt að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga, en óheimilt að birta hana eða miðla upplýsingum úr henni.

Við vinnslu persónuupplýsinga skv. ákvæðinu þurfa stjórnmálasamtök að uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í erindi sínu bendir Erna á að fyrir liggi ákvörðun um að synja Flokki fólksins um opinber fjárframlög þar sem hann sé ekki réttilega skráður sem stjórnmálasamtök og álitamál uppi um lögmæti slíkra greiðslna til fleiri samtaka. Hún telur því „eðlilegt næsta skref að rannsaka hvort aðrir en löglega skráð stjórnmálasamtök eiga rétt á að fá kjörskrár afhentar“ á grundvelli fyrrnefndra laga.

Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir

Morgunblaðið óskaði staðfestingar Persónuverndar á móttöku erindisins. Helga Þórisdóttir svaraði að sitt fólk væri að skoða málið og að frekari svara mætti vænta síðar.

Enginn vafi í huga ráðherra

Blaðið sneri sér því til Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra og spurði hvort fleiri sérréttindi stjórnmálasamtaka en opinber fjárframlög væru upphafin ef skráningu væri ábótavant; hvort Flokkur fólksins nyti þeirra frekar en önnur almenn félagasamtök.

Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Flokkur fólksins er stjórnmálaflokkur. Kjörnir fulltrúar þess flokks sitja á Alþingi og flokkurinn á sæti í ríkisstjórn. Allir sjá að það er stjórnmálaflokkur sem þar situr,“ segir dómsmálaráðherra.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert