Þegar yfirheyrslur hófust í byrlunarmálinu haustið 2021 játaði konan, sem grunuð var um að hafa byrlað Páli Steingrímssyni, þáverandi eiginmanni sínum ólyfjan, brot sitt skýlaust og bar við bræðiskasti vegna gruns um framhjáhald.
Í sömu yfirheyrslu lýsti konan því yfir að hún hefði skoðað farsíma manns síns og fundið þar efni, myndir, textaskilaboð og myndbönd sem staðfestu það. Einnig hefði hún komist á snoðir um aðra og alvarlegri hluti, sem orðið hefði til þess að hún ákvað að koma símtækinu í hendur fjölmiðla.
Þegar konan bjóst til að lýsa þessu nánar greip lögmaður hennar, Lára V. Júlíusdóttir, inn í og óskaði eftir að hlé yrði gert á yfirheyrslunni. Að hléi loknu var mun minna um yfirlýsingar af hálfu konunnar þótt ekki drægi hún vitnisburð sinn til baka.
Upphaf málsins má rekja til þess að þegar Páll Steingrímsson skipstjóri vaknaði eftir mjög alvarleg bráðaveikindi grunaði hann fljótt að eitthvað hefði verið átt við síma hans, líkt og staðsetningarbúnaður gaf til kynna.
Þetta og fleira er rakið í ótrúlegri fréttaskýringu í blaðinu í dag (bls. 18) sem er framhald af fyrri umfjöllun um byrlunarmálið, sem birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar.
Í fréttskýringunni í dag er útskýrt hvernig tvö símtöl frá tveimur blaðamönnum á sitthvorum miðlinum, til Páls Steingrímssonar þann 20. maí 2021 breytti gangi málsins. Símtölin voru með tíu mínútna millibili og eftir þau skundaði Páll rakleitt á lögreglustöð og gaf nýja skýrslu í málinu.