„Þetta byrjaði náttúrulega bara með tölvum, en nú erum við komin út í þennan netheim hægt og bítandi,“ segir Gunnhildur Róbertsdóttir, tölvunarfræðingur og deildarstjóri tölvurannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í þriðja viðtali mbl.is um viðsjárverðan heim stafrænna afbrota sem æ meir rata í fréttir þessi misserin.
Gunnhildur þessi er Siglfirðingur og ólst þar upp, en varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem framtíðardraumur hennar fæddist. „Ég ákvað þá að ég ætlaði að vera tölvulögga og fór í nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík,“ segir hún frá.
Að loknu BS-prófi frá HR fangaði nám í stafrænum réttarrannsóknum (e. digital forensics) í Bretlandi athygli Siglfirðingsins unga. Gunnhildur hélt utan, lauk meistaranámi í fræðunum stafrænu frá Bradford-háskóla og ætlaði þaðan að koma sér í lögregluna og ljúka prófi frá Lögregluskóla ríkisins sem þá var með sínu gamla sniði og lögreglunám á landinu ekki enn komið á háskólastig.
„En ég endaði í einkageiranum,“ segir Gunnhildur. Fóru leikar svo, í bili, að hún fékk vinnu hjá fyrirtæki í London sem aðstoðar lögmannsstofu þar við stafræn verkefni fyrir stærri málaferli, svo ekki rættist draumurinn um að verða tölvulögga – ekki bókstaflega alla vega. Staða Gunnhildar í dag er ekki lögregluþjónsstaða, hún er deildarstjóri sem fyrr segir. Við sammælumst um að æskudraumurinn hafi þó sloppið fyrir horn.
„Þegar ég var búin að vera stutta stund í þessu starfi var ég send til München í Þýskalandi þar sem ég bjó á hóteli í tvö ár við að sinna stórverkefni í löngum málaferlum,“ segir hún frá. Í kjölfar dómsuppkvaðningar í málaferlunum langvinnu hafði Bayern-fylki unnið hug og hjarta Gunnhildar þótt öðrum Þjóðverjum þyki íbúar þar suður frá gjarnan þrjóskir og góðir með sig – lái þeim hver sem vill, þeir voru hertogadæmi og búa til BMW.
„Ég settist að í München og fór að vinna hjá Siemens þar sem ég var ráðin, en það var fyrirtækið sem ég hafði verið til aðstoðar í dómsmálinu þarna gegnum vinnuveitandann í London,“ segir Siglfirðingurinn af þessari samevrópsku vinnumarkaðsfléttu snemma á öldinni.
Starfaði hún við rannsóknir og stafræna gagnaöflun allt fram til ársins 2017, en kveðst þó aðspurð ekki hafa búið á hótelinu allan tímann heldur fengið íbúð árin sem eftir voru af dvölinni í Suður-Þýskalandi, þau urðu alls tíu. Svo tóku heimahagarnir á Siglufirði við.
„Þá fór ég að vinna hjá líftæknifyrirtækinu Genís, við stafræna markaðssetningu, og það var svo ekki fyrr en árið 2022 sem auglýsingin um draumastarfið, að verða tölvulögga, kom frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnhildur sem þá hafði alið draum sinn með sér í tvo áratugi.
Hún fór í viðtalið í eftirköstum heimsfaraldursins fræga, en fór reyndar ekki langt þar sem hún smitaðist einmitt af kórónuveirunni og tók viðtalið á Teams sem mestöll heimsbyggðin kynntist á mettíma árið 2020.
„Ég byrjaði svo í þessu starfi í október 2022 og var búin að starfa í ár þegar ég var beðin að taka við tölvurannsóknardeildinni sem er stoðdeild innan lögreglunnar, eins og tæknideildin, við sinnum öllu landinu og embætti úti á landi geta alltaf leitað til okkar með sín mál,“ útskýrir deildarstjórinn.
Lögregluembætti á landsbyggðinni búi ekki öll yfir tækjum og mannskap til rannsóknar á stafrænum glæpum og eins segir Gunnhildur hennar fólk vera miðlægu rannsóknardeildinni á höfuðborgarsvæðinu mikið til fulltingis. Þegar þar koma upp verkefni sem tengjast til dæmis stafrænum kynferðisbrotum, auðgunarbrotum eða skipulagðri glæpastarfsemi komi til kasta tölvurannsóknardeildarinnar.
„Þetta skarast allt og við aðstoðum til dæmis Ævar Pálma [Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjón] og kynferðisbrotadeildina [sjá viðtal handan tengilsins hér að ofan] við að útbúa verkbeiðnir, en oft reynum við að finna önnur úrræði áður en við förum að setja okkur í samband við aðila erlendis.
Það kemur í okkar hlut að senda varðveislubeiðnir [þá eru fyrirtæki sem eiga samfélagsmiðla beðin að frysta gögn notenda sem hugsanlega hafa brotið af sér] og ef gögn berast til baka hjálpum við þeim að lesa úr gögnunum. Þar reynast svo oft upplýsingar sem við getum nýtt okkur og sent áfram á aðra, til dæmis ýmis auðkenni sem nýtast til að drífa málið áfram,“ útskýrir Gunnhildur.
Geturðu nefnt mér dæmi um innlend mál, til dæmis sem þið aðstoðið embætti úti á landi við?
„Það er náttúrulega orðið þannig að stærsti hluti þessara mála og flest þeirra mála sem koma utan af landi eru þessi barnaníðsmál, þar sem lögregluembætti á landsbyggðinni hafa ekki tök á að vinna þau mál sjálf,“ svarar deildarstjórinn um hæl. Fjölgun innan þess málaflokks hafi nánast verið í veldisvexti með stóraukinni netnotkun síðustu ára, eins og téður Ævar Pálmi benti raunar á í viðtali hér á vefnum fyrir viku þegar hann sagði að daglegt líf fólks virtist alltaf vera að færast meira og meira inn í netheima.
„Þetta er svo mikið magn. Símar í dag eru jafn stórir og harðir diskar voru árið 2005 og með allri þessari netnotkun er orðið svo miklu meira aðgengi að ólöglegu efni, þar á meðal barnaníðsefni,“ heldur Gunnhildur áfram.
„Í mörgum tilfellum er ekkert endilega verið að rannsaka barnaníð, rannsóknin getur snúist um kynferðisbrot eða kynferðisbrot gagnvart barni. Þá eru öll gögn haldlögð og þá komumst við kannski inn í annan heim þegar í ljós kemur hvað fleira finnst hjá viðkomandi. Þá eru þetta kannski bara safnarar,“ segir hún og vísar til brotamanna sem safna myndefni sem sýnir börn í kynferðislegu samhengi eða í kynferðislegum athöfnum.
Tölvurannsóknardeildin veiti aðstoð við að komast inn í hvort tveggja síma og tölvur og þá sé vinnuregla að ef grunur er um kynferðisbrot gegn barni, að svipast þá þar um eftir gögnum sem tengjast þeim brotaflokki. Ekki að tækin sjálf geymi endilega svo mikið.
„Síminn þinn er bara áhald, mest af því sem þú ert með í símanum er á netinu, það er geymt í skýjaþjónustum,“ bendir Gunnhildur á.
Getur þitt fólk gert allt á þessum vettvangi, brotist inn í allar rafrænar gagnageymslur, eða kemur að þeim þröskuldi að þið þurfið að leita til enn sérhæfðari fræðinga?
„Við getum gert mikið, við erum vel tækjum búin, en oft er þetta líka spurning um að rekja slóðir. Eitt af því eru til dæmis þessi svokölluðu ástarsvik. Þar eru til dæmis ekkert alltaf erlendir aðilar á ferð, við höfum verið með mál til rannsóknar þar sem íslenskur aðili stundaði þetta á samfélagsmiðlum og stefnumótasíðum,“ svarar Gunnhildur og lýsir hinu dæmigerða ferli ástarsvika sem eitthvað hafa nú verið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum síðustu misseri.
Dæmigerð aðferðafræði svikahrappa af þeim toga sé að leita uppi fólk, hvort svo sem það eigi um sárt að binda, sé með einhverjum hætti í viðkvæmri stöðu, eða bara hver sem vera skyldi sem bítur á þennan samskiptaþráð. Svikarinn vingist við fórnarlamb sitt og reyni að vekja tilfinningar eða láta í veðri vaka að þær séu í spilinu af sinni hálfu.
„Svo kemur að því að einstaklingurinn [svikahrappurinn] segist vera veikur eða þurfa aðstoð við hitt og þetta og fái þá peninga. Og þetta eru ekkert einn eða tveir, þetta er fullt af fólki sem sami aðili er að svíkja út úr og fjárhæðirnar geta hlaupið á milljónum sem sama manneskja er að svíkja út úr mörgum aðilum og þá kemur að okkur að rekja þessa slóð.
Þegar kæra kemur erum við beðin um aðstoð og þurfum þá að fara gegnum gögn aðila sem hefur verið svikinn og svo rekja okkur til baka gegnum þessa aðila. Íslenskar stefnumótasíður hafa til dæmis verið mjög samvinnuþýðar við okkur þegar við erum komin með úrskurði og annað sem við þurfum,“ segir Gunnhildur og er spurð hvort lögreglan hafi hugmynd um hlutfall þeirra sem stíga fram og tilkynna.
„Við höfum oft rætt þetta,“ svarar viðmælandinn hiklaust og bætir því við að þótt erfitt sé að gefa hér nákvæm svör sé ljóst að tilkynningar séu mun færri en fórnarlömbin. „Það er oft sem fólk þorir ekki að stíga fram fyrr en orðið er um stórar upphæðir að ræða,“ heldur hún áfram.
Sönnunargögn í málum af þessu tagi séu oftar en ekki samtöl málsaðila á samfélags- eða stefnumótamiðlum, en einnig sé til í dæminu að grafa þurfi upp gögn sem eytt hefur verið, oftast af hálfu brotamanns til að hylja slóð sína. „Svo er streymi ólöglegs efnis [e. live streaming, bein útsending efnis í mynd] nýtt fyrirbæri núna í barnaníðsmálum, þau snúast ekki lengur bara um að sækja gögn eða deila þeim, nú þarf að finna út hvaðan streymisefni kemur,“ segir Gunnhildur af þróun sem engin landamæri virðist þekkja.
Bendir hún á að sprengja í streymismálum hafi til dæmis orðið meðan á heimsfaraldrinum stóð. „Það hefur verið að koma inn á okkar borð líka,“ segir hún og minnir í framhaldinu á að auðvitað komi fleiri brotaflokkar á þau borð en kynferðisbrot og oftar en ekki komi það þá í hlut hennar fólks, ekki rannsóknarlögreglumanna eingöngu, að lesa netsamskipti með tilliti til efnis þeirra.
„Til dæmis þessi mál sem geta ekki beðið, eins og manndráp, þá erum við að lesa samskipti þó að lögreglumennirnir sjálfir fari kannski dýpra í þau.“
Aðspurð segir Gunnhildur þau vera sex starfsmenn í hennar deild, fimm sérfræðinga og einn lögreglufulltrúa, og þar sé menntun allra hlutaðeigandi á sviði stafrænna réttarrannsókna, ýmist meistaraprófsgráður eða sérgráðan NCFI (Nordic Computer Forensic Investigators) frá norska lögregluháskólanum.
Myndirðu segja að skortur væri á fólki með menntun af þessu tagi, hvort tveggja innan löggæslu og annars staðar í þjóðfélaginu?
„Já, það er mikil vöntun á þessari þekkingu, sérstaklega með auknum netglæpum. Landamæri eru ekki lengur til í afbrotum sem nú orðið er hægt að fremja á netinu,“ svarar Gunnhildur og segir álag á lögreglu vegna netglæpa hafa margfaldast auk þess sem vettvangurinn sé orðinn svo gríðarstór.
„Allir þessir samfélagsmiðlar eru eitt, en annað er skipulögð glæpastarfsemi og notkun netsins og spjallþráða við að skipuleggja brot. En það sem snýr mest að okkur eru þessi rosalega stóru barnaníðsmál og við erum alveg á tánum, starfsfólki í þessum geira þarf að fjölga bara eins og í löggæslu almennt, þessi brot gerast á öllum tímum sólarhringsins, allir eru með síma í vasanum og það þarf að bregðast skjótt við til að fá nauðsynlegar upplýsingar,“ segir Gunnhildur Róbertsdóttir, deildarstjóri tölvurannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og kveður blaðamann með ákvörðun sem styrkst hefur nánast með hverjum deginum í starfi hennar:
„Barnið mitt fær aldrei Snapchat.“
Viðtalið við Gunnhildi er það þriðja í greinaflokki mbl.is um netglæpi sem birtast mun lesendum í áföngum það sem eftir lifir febrúarmánaðar.