Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur rekur Laxdæla sögu á sinn hátt á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi. Hún hefur skrifað fimm skáldsögur um tvær persónur hennar – þríleik um Auði djúpúðgu og tvennu um Þorgerði Þorsteinsdóttur, barnabarn Auðar. Vilborg þekkir vel til á Söguloftinu, en þar endursagði hún þrjár bækur sínar um Auði í tvo vetur frá 2017 til 2019, þrjátíu sinnum alls fyrir fullu húsi.
Sögulegar skáldsögur hennar gerast á tímum þegar örlagatrú var ríkjandi. Er hún örlagatrúar? „Já, ég legg metnað minn í að trúa á yfirnáttúruna og vera með opinn huga gagnvart því sem ég fæ ekki skilið! Ég er ekki með sterkmótaða trúarsýn að öðru leyti en því að ég er sannfærð um að til er annar heimur en okkar, vídd sem stundum fæst innsýn í þótt óskiljanleg sé. Það er hroki í því þegar nútíminn þykist hafa skilið allt sem fyrir ber. Viðhorfið fyrr á tímum endurspeglaði hins vegar virðingu jafnt fyrir náttúrunni sem óskiljanlegri yfirnáttúrunni.
Eiginmaður hennar Björgvin Ingimarsson, kennari og sálfræðingur, var 47 ára gamall þegar hann dó úr heilakrabba árið 2013. Þau hjón nefndu heilakrabbann dreka.
Allt síðan þá hefur Vilborg talað við Björgvin og beðið hann að senda sér tákn þegar hún þurfi á styrk að halda. „Og hann gerir það,“ segir Vilborg og nefnir dæmi: „Nóvember er sá mánuður sem er mér erfiðastur. Björgvin átti afmæli 16. nóvember og síðasta nóvembermánuðinn sem hann lifði vissi ég að skammt væri eftir. Í nóvember 2023 fór ég enn og aftur inn í þennan dimma tíma og bað Björgvin um að senda mér nú dreka. Þá sá ég auglýsingu frá Ásatrúarfélaginu um fyrirlestur bandarísks rithöfundar um bók sem hann væri að skrifa um dreka. Ég mætti vitanlega og það var skemmtilegur klukkutími. Núna í miðjum nóvember síðastliðnum bað ég aftur um dreka, og sá sama dag skærgulan bíl innan um fjölda grárra á stóru bílastæði við Bónus með plastdreka á mælaborðinu. Á númeraplötunni stóð með hástöfum: DREKI.“
Hún biður Björgvin ekki einungis að senda sér dreka heldur einnig regnboga ef henni liggur á. „Drekar eru kannski ekki eitthvað sem maður býst við í hversdeginum. Það er fljótlegra að fá regnboga, ásbrúna, í þessu blauta landi, en þá er hann oft tvöfaldur, breiðir úr sér yfir fjall eða er á einhvern hátt sérstakur.
Ég lenti í því í vetur að fá gallsteinakast og var ósköp lítil í mér, lá inni á Landspítala og þurfti að fara í bráðaaðgerð. Þar sem ég lá þarna hugsaði ég til Björgvins og sagði við hann: Mikið væri gott að fá regnboga núna. Þá klingdi í símanum. Ég hafði fengið senda mynd frá vinafólki stöddu í Orkneyjum, á uppáhaldsstað mínum þar, Steinanesi, sem ég skrifaði inn í Blóðuga jörð. Þarna eru gríðarháir bautasteinar, reistir fyrir 5.000 árum, þar sem ég sviðsetti brúðkaup sonardóttur Auðar djúpúðgu. Á myndinni snertast endarnir á tveimur regnbogum við einn bautasteinanna, þannig að þeir mynda V, upphafsstafinn í nafninu mínu.
Einhver gæti kallað þetta sjálfssefjun eða tilviljun en það skiptir ekki máli. Þetta styrkir mig og er óskiljanlega yfirnáttúrulegt, skemmtilegt og skrýtið.“
Vilborg er með óskáldaða bók í smíðum sem kemur líkast til út næsta haust. „Það er snúið að lýsa henni. Vinnuheitið, og líklegur titill, er Vetrarbókin. Útgangspunkturinn er að hjálpa sjálfri mér og lesandanum vonandi líka að komast í gegnum íslenskan vetur, þennan erfiða og frostkalda tíma með myrkri og fárviðrum.“
Rætt er ítarlega við Vilborgu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.