Fundar með forystu Kennarasambandsins

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari átti fund með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær og fundar með forystu Kennarasambands Íslands í dag.

„Við erum í samtölum við aðilana hvorn í sínu lagi og erum að undirbúa tillögur um eitthvað sem gæti verið til þess fallið að færa okkur áfram,“ segir Ástráður.

Hann segir að ekki sé ástæða til að boða til sameiginlegs fundar með deiluaðilum enn sem komið er en síðast var fundað í kjaradeilunni á mánudag. 

Mætti ganga hraðar

Samninganefndir framhaldsskólakennara og ríkisins hittust á fundi hjá ríkissáttasemjara á föstudag og hefur nýr fundur verið boðaður í deilunni á morgun.

„Það hafa staðið yfir viðræður um afmarkaða þætti sem varða ekki beinlínis heildarmynd samningsins heldur afmarkaða þætti sem snúa sérstaklega af þeim. Því miðar áfram en mætti ganga hraðar,“ segir Ástráður.

Félag leikskólakennara boðaði á föstudaginn verkfall í öllum 22 leikskólum Kópavogs frá 3. mars og verða verkföllin ótímabundin. Eftir helgi greiða kennarar atkvæði um verkföll í öllum leikskólum Hafnarfjarðar og Fjarðabyggðar.

Félagsfólk í Félagi grunnskólakennara og Skólastjórafélagi Íslands, sem starfar hjá sveitarfélögunum Ölfusi, Hveragerðisbæ og Akraneskaupstað, hefur jafnframt samþykkt verkfallsboðun frá 3. mars. Verkfallsboðun nær einnig til félagsfólks sem starfar á skólaskrifstofum sveitarfélaganna. Verkföll grunnskólafélaganna verða tímabundin og standa til og með 21. mars.

Félagsfólk í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, sem starfar í Tónlistarskóla Akureyrar, hefur jafnframt samþykkt boðun verkfalls frá og með næsta föstudegi, 21. febrúar. Verkfallið verður tímabundið og stendur til og með 4. apríl, hafi samningar ekki náðst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert