„Fasteignafélagið Þórkatla hefur gengið frá kaupum á alls 937 eignum í Grindavík og í nær öllum tilfellum hefur kaupverðið staðið óhaggað.“
Þetta segir Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Þórkötlu í skriflegu svari til Morgunblaðsins í framhaldi af frétt um að fjölmargir húseigendur í Grindavík undirbúi nú málaferli gegn félaginu. Tilgangur Þórkötlu er að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlisins í Grindavík vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi.
Örn Viðar segist ekki tjá sig um einstök mál. Hann segir að hafa verði í huga að viðskipti Þórkötlu séu ekki hefðbundin fasteignaviðskipti. Félagið hafi tilkynnt seljendum að það geti tekið allt að fimm virka daga að ganga frá greiðslum. Reynslan sé þó sú að þetta taki í flestum tilfellum skemmri tíma.
„Nokkur afmörkuð úrlausnarefni hafa komið upp sem varða uppgjör á milli aðila, þar á meðal tvær fyrirspurnir varðandi dráttarvexti. Félagið hefur þegar samþykkt annað erindið og er hitt í skoðun,“ segir Örn Viðar í svari sínu.
„Afar fá dæmi eru um að grípa hafi þurft til endurskoðunar kaupverðs við kaup á eignum í Grindavík. Þrír aðilar hafa fengið bréf frá félaginu um að krafa sé gerð um endurskoðun kaupverðs vegna slæms ástands eigna sem þeir seldu.“
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.