Strætó hættir að taka við reiðufé frá og með 1. júní 2025. Á sama tíma á að fjölga sölustöðum á strætómiðum til að tryggja aðgengi þeirra sem ekki nota snjallsíma.
Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð stjórnar Strætó undir liðnum „útfösun bauka“. Á stjórnarfundi byggðasamlagsins þann 31. janúar benti framkvæmdastjóri Strætó á að hlutfall reiðufjár af fargjaldatekjum hefði lækkað undanfarin ár.
Frá því í desember hefur verið hægt að borga með greiðslukorti um borð í öllum vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu.
Í skjali sem fylgir fundargerðinni kemur fram að í febrúar verði komið upp sölu fargjalda í sundlaugum í Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Auk þess eigi að finna fleiri hugsanlega rekstraraðila til að efla net endursöluaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þar er nefnt að einstaka verslanir og hótel selji fargjöld til gesta.
Samhliða útfösuninni hyggst Strætó fara í markaðsherferð til að vekja athygli á því að baukarnir séu á leiðinni burt.
Um áramótin hækkaði Strætó verð á stökum fargjöldum fyrir fullorðna úr 650 kr. í 670 kr. í takt við áætlaða hækkun neysluverðsvísitölu. Í byrjun árs hóf Strætó einnig að sekta þá farþega sem greiða ekki fargjald í strætisvagna.
Hlutfall reiðufjár í umferð við verga landsframleiðslu var 2,1% í árslok 2022 en 1,8% í lok 2023. Þá voru 9,3% af öllu peningamagni í umferð í formi reiðufjár að virði tæplega 76 milljarða króna og hafði lækkað um 5 milljarða frá fyrra ári.