Vætutíð í vikunni: „Fullmikið eftir af vetrinum“

„Það virðist vera að byrja einhver vætutíð svona þegar það …
„Það virðist vera að byrja einhver vætutíð svona þegar það kemur fram í vikuna,“ segir veðurfræðingur í samtali við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búast má við vætutíð og hækkandi hitastigi í vikunni. Hiti gæti náð allt að tíu stigum í einhverjum landshlutum en þó segir veðurfræðingur enn „fullmikið“ vera eftir af vetrinum.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir veðrið í dag svipað og í gær. Hvöss sé austanáttin með suðurströndinni en þó hægari.

„Það hefur verið lítils háttar él á Suðaustur- og Austurlandi en víða bara sólríkt veður í landshlutum og það er bara svipað uppi á tengingum á morgun,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.

Á þriðjudag má svo búast við rigningu sunnanlands, aðallega þó á Suðausturlandi. „Og hitinn á aðeins að fara hækkandi, það á aðeins að fara að hlýna.“

Nóg eftir af vetrinum 

Á miðvikudag komi svo vindur og væta sunnanlands, en búast má við skárra veðri fyrir norðan.

Aðspurður telur Haraldur enn vera „fullmikið eftir af vetrinum“ þó að vissulega sé eilítið „vorlegt“ að fá upp í tíu stiga hita sums staðar á miðvikudaginn.

Hann segir veðrið hafa verið stöðugt eftir þá óveðrahrinu sem gekk hér yfir land í byrjun febrúar.

„Það hefur verið stöðug austanátt og ekki mikil úrkoma en það virðist vera að byrja einhver vætutíð svona þegar það kemur fram í vikuna. Svo sjáum við bara hvað verður úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert