Vonar að meirihluti verði myndaður í vikunni

„Ég vona að þetta verði í vikunni en lofa engu. …
„Ég vona að þetta verði í vikunni en lofa engu. Engin okkar getur einhvern veginn lofað því,“ segir borgarfulltrúi VG. Ljósmynd/Aðsend

Skólar, rekstur borgarinnar, samgöngur og húsnæðismál eru meðal þess sem hefur verið til umræðu á yfirstandandi meirihlutaviðræðum vinstri flokka í Reykjavík, en ekki borgarstýrustóllinn.

Eins og kunnugt er orðið hafa oddvitar Vinstri grænna, Sósíalistaflokksins, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og Pírata fundað um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Viðræðurnar hafa staðið yfir í fjóra daga.

Borgarfulltrúi VG vonast til þess að viðræðum ljúki fyrir næstu helgi en lofar engu.

„Við höfum ekki rætt stöður eða formennskur, eða nefndir og …
„Við höfum ekki rætt stöður eða formennskur, eða nefndir og ráð, eða borgarstýrustöðu. Við höfum algjörlega látið það um lönd leiða á þessu stigi málsins,“ segir Líf Magneudóttur, borgarfullrtúi VG.

Ræða „stóru strokurnar“

„Við höfum í dag haldið áfram að ræða stóru strokurnar,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, í samtali við mbl.is.

Með henni á fundunum sitja Heiða Björg Hilmisdóttir (S), Dóra Björt Guðjónsdóttir (P), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J) og Helga Þórðardóttir (F). Fundurinn stóð yfir frá um kl. 10-18. 

Og hverjar eru þessar stóru strokur sem hún talar um? „Þetta er bara það sem allir eru að nefna; húsnæðis- og samgöngumálin, leikskólar og grunnskólar, og við höfum verið að ræða mikið þjónustu við borgarbúa.“

Á fundum sínum hafa forystukonurnar boðað til sín fólk úr stjórnsýslu borgarinnar til að fá yfirsýn á stöðu Reykjavíkur. Sú vinna heldur enn áfram, að sögn Lífar.

„Þetta er allt saman að mótast.“

Hvað er langur tími í pólitík?

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði á Sprengisandi Bylgjunnar í dag að það vekti furðu „hvað þetta samtal tæki langan tíma“. Spurð út í þetta spyr Líf spurningar á móti.

„Fyrst spyr ég auðvitað: Eru fjórir dagar langur tími þegar fimm flokkar koma saman og allt er undir? Ég skil vel að borgarbúar og Hildur séu óþreyjufull. Ég er það líka. Þannig að við bara reynum að vanda okkur og hafa hraðar hendur,“ svarar Líf.

„En hvað er langur tími í pólitík?“ bætir hún við kímin og vísar þar til margmæltrar klisju stjórnmálamanna. „Er það vika? Eða er það kannski eitthvað lengra. Ég veit það ekki.“ 

Líf bendir einnig á að Helga Þórðardóttir, sem er nýtekin við sem oddviti Flokks fólksins, sé ekki búin að upplifa langan tíma í pólitík, enda sé hún aðeins búin að vera í borgarstjórn í 18 daga. „Það þarf að sýna því það rými. Þetta er svolítið djúpa laugin fyrir Helgu en hún er alveg ótrúlega kvikk og mjög snögg að setja sig inn í allt.“

Ég veit það trúir okkur enginn en...

Borgarstjórastaða, eða borgarstýrustaðan, hefur enn ekki komist til umræðu á fundum þeirra, segir Líf innt eftir því hver verði næsti borgarstjóri.

„Ég veit að það trúir okkur enginn og að við erum allar búnar að segja það en við höfum bara ekkert rætt það,“ segir hún.

„Við höfum ekki rætt stöður eða formennskur eða nefndir og ráð. Eða borgarstýrustöðu. Við höfum algjörlega látið það um lönd leiða á þessu stigi málsins.“

Þær komi þó til með að ræða það. „En fyrst þurfum við að ganga frá því sem sameinar okkur og við erum sammála um.“

„Algjörlega súper-duglegar“

Þú nefndir að skólamál og leikskólamál hefðu verið til umræðu. Eruð þið komin á einhvern annan stað í þeim málum en síðasti meirihluti?

„Það er bara ekki tímabært að gefa það upp, myndi ég segja,“ svarar hún og bætir við:

„Við höfum auðvitað líka verið að skoða rekstur Reykjavíkurborgar og kölluðum á fund okkar í gær einn af fjármálastjórunum. Þannig að við þurfum að leggjast fyrir alla þessa þætti. Í þeirri vinnu erum við og við erum búnar að vera algjörlega súper-duglegar.“

Funda aftur á morgun

Hún segir að forystukonurnar fundi aftur á morgun, síðan verði borgarstjórnarfundur samkvæmt dagskrá á þriðjudag. „Ég vona að þetta fari nú að skýrast í vikunni sem er framundan,“ segir hún.

Megum við búast við því að þessum viðræðum ljúki í þessari viku?

„Það sem liggur til grundvallar samtarfi er að við vitum hvað við ætlum að gera og eins og ég hef sagt tökum við bara þann tíma sem þarf til að móta þær áherslur. Og bara smá væntingastjórnun, ég ætla ekki að gefa nein loforð, en það er óskastaða að við náum í næstu viku. Og við leggjum allt kapp á að gera þetta sem fyrst.“

Vinnunni hafi hingað til undið fram en Líf endurtekur: „Ég vona að þetta verði í vikunni en lofa engu. Engin okkar getur einhvern veginn lofað því.“

Föstudaginn 7. febrúar sprengdi Ein­ar Þor­steins­son, borg­ar­stjóri og odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins, meiri­hluta­sam­starfið í borg­inni. Hann reyndi að leiða saman borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins í nýjan meirihluta. Þær viðræður runnu út í sandinn daginn eftir þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra í ríkisstjórn, setti fótinn fyrir dyrnar er hún neitaði að „leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni“.

Viðræður vinstri flokkanna hófust síðan þann 12. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert