Gerðist síðast fyrir rúmlega öld

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, mun í ágúst láta af störfum og taka við starfi forstjóra Landsnets. Hún hefur gegnt starfinu í tæplega sex ár og varð fyrst kvenna ráðin skrifstofustjóri Alþingis.

Hún verður fyrsti skrifstofustjórinn í meira en eina öld sem lætur af störfum án þess að gera það sökum aldurs.

Frá því að lög um þingsköp Alþingis voru samþykkt árið 1915 hafa skrifstofustjórar Alþingis verið nokkuð þaulsetnir og verður meðalstarfsaldur þeirra nú þegar Ragna lætur af störfum um 18 ár, ef frá eru taldar afleysingar.

Verður Ragna sú sem hefur gegnt starfinu styst á þessari rúmu öld.

Helgi Bernódusson var skrifstofustjóri Alþingis frá 2005 til 2019, en …
Helgi Bernódusson var skrifstofustjóri Alþingis frá 2005 til 2019, en þá lét hann af störfum sökum aldurs. mbl.is/Golli

Ekki til staðar frá upphafi

Eins og fram kemur á vef Alþingis var starf skrifstofustjóra ekki til staðar frá upphafi.

Á ráðgjafarþingunum frá 1845 til 1873 var staðan ekki til, en hins vegar höfðu forsetar Alþingis sérstaka skrifara sér til aðstoðar.

Á löggjafarþingunum frá og með 1875 til ársins 1915 var ráðinn skrifstofustjóri fyrir hvert þing, en árið 1915 voru sett lög um þingsköp Alþingis og varð starf skrifstofustjóra þá að föstu starfi veittu til sex ára í senn. Með launalögum árið 1919 var starfið svo gert að föstu embætti.

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák, varð síðar skrifstofustjóri …
Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák, varð síðar skrifstofustjóri Alþingis frá 1984 til 2005. mbl.is/Kristinn

Sjö gegnt starfinu

Frá árinu 1915 hafa eftirtaldir gegnt starfinu:

  • Einar Þorkelsson rithöfundur 1914-1922
  • Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi 1923-1956 (hann var jafnframt settur skrifstofustjóri 1921-1922 í forföllum Einars)
  • Friðjón Sigurðsson lögfræðingur 1956-1984
  • Friðrik Ólafsson lögfræðingur og skákmeistari 1984-2005
  • Ólafur Ólafsson lögfræðingur var settur skrifstofustjóri í ársleyfi Friðriks 1993-1994
  • Helgi Bernódusson 2005-2019
  • Ragna Árnadóttir 2019-2025

Fyrir utan Einar, sem var 55 ára þegar hann lét af störfum sem skrifstofustjóri, hættu þeir Jón, Friðjón, Friðrik og Helgi allir sökum aldurs þegar þeir urðu 70 ára.

Ragna er hins vegar ekki nema 58 ára og er því langt frá því að komast á aldur. Hún er því fyrsti skrifstofustjóri Alþingis frá því árið 1922, þegar Einar hætti, sem ekki lætur af störfum sökum aldurs.

Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóri Alþingis 1956-1984 ásamt frú Vigísi Finnbogadóttur, þáverandi …
Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóri Alþingis 1956-1984 ásamt frú Vigísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta Íslands, á leið inn í þingsal Alþingis. mbl.is/Ólafur K. Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka