Viðræður aamninganefnda Félags framhaldsskólakennara og ríkisins þokuðust áfram á fundi ríkissáttasemjara í dag.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir í samtali við mbl.is að á fundinum hafi meðal annars verið mótaðar lausnir sem snúa að afmörkuðum þætti kjarasamningsins og vonast hann til þess að þær muni liðka fyrir lausn á heildarmynd samningsins.
Verkföll munu skella á í fimm framhaldsskólum á föstudag verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Verkföll eru boðuð í Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Ekki hefur verið fundað sameiginlega með samninganefndum leik- og grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga síðan á mánudag í síðustu viku.
Ástráður segir að fundað verði með samninganefnd Kennarasambands Íslands í fyrramálið þar sem þau munu „halda áfram að þoka málum áfram“ auk þess sem rætt verði hvort grundvöllur sé fyrir að boða til nýs sameiginlegs samningafundar með Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Innanhústillaga ríkissáttasemjara er enn á borðinu en hún var lögð fram í kjaradeilunni í lok janúar. Hefði tillagan verið samþykkt af öllum samningsaðilum hefði hún verið ígildi kjarasamnings.
Í tillögunni var lagt upp með að deilan um jöfnun launa á milli markaða yrði leyst með virðismati á störfum kennara.
Ríki og sveitarfélög samþykktu tillöguna en ekki kennarar. Þeir eru tilbúnir að fara virðismatsleiðina með ákveðnum skilyrðum en gera kröfu um að forsenduákvæði sé flýtt og að meiri innspýting sé sett í launahækkanir á samningstímanum.
Spurður hvort hann sé farinn að leita nýrra leiða til að leysa úr deilunni segir Ástráður að hann sé alltaf að „kokka eitthvað“ en að slíkt sé ekki til umræðu á þessu stigi.