Halda áfram með söluna: Erindi Arion metið

Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra.
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Ríkið mun halda áfram að vinna að undirbúningi á sölu á hlut sínum í Íslandsbanka í almennu og opnu útboði. Fjármálaráðuneytið segir að erindi Arion banka um sameiningu verði metið með vönduðum hætti af hálfu ríkisins áður en nokkur afstaða er tekin til erindisins. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

Þar segir að í kjölfar tilkynningar ríkisins á föstudag um fyrirhugað opið almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi Arion banki birt erindi til Íslandsbanka um áhuga sinn á viðræðum um sameiningu bankanna.

„Í erindinu kom m.a. fram að hluthöfum Íslandsbanka, þ.m.t. ríkinu, stæðu til boða hlutabréf í sameinuðum banka samkvæmt tiltekinni aðferðafræði.

Frestur stjórnar Íslandsbanka til að svara Arion banka er 14 dagar. Í ljósi þess að um er að ræða stórt mál, sem varðar tvo skráða banka á samkeppnismarkaði með fjölbreyttan hluthafahóp, er eðlilegt og nauðsynlegt að málið verði metið með vönduðum hætti af hálfu ríkisins, stærsta hluthafans, áður en nokkur afstaða er tekin til erindis Arion banka,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Tekið er fram að ríkið muni halda áfram að vinna að undirbúningi á sölu á hlut sínum í Íslandsbanka í almennu og opnu útboði.

„Frumvarp um söluferlið var birt í samráðsgátt fyrir helgi og að loknu samráði verður málið tekið fyrir á Alþingi. Í frumvarpinu er lögð sérstök áhersla á framkvæmdina á útboðsferlinu, þ.e. á hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi, ásamt forgangi almennings,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert