Spáir „tilbrigðum af bjöllufundi“

Þórdís Lóa kvaðst í viðtali við mbl.is í haust vera …
Þórdís Lóa kvaðst í viðtali við mbl.is í haust vera úthverfakona í húð og hár. Hún segir Viðreisn tilbúna að hlaupa hratt sigli yfirstandandi meirihlutaviðræður í strand. Samsett mynd

„Fundurinn á morgun í borgarstjórn verður haldinn, honum er ekki hægt að fresta nema á honum sjálfum,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar hjá Reykjavíkurborg þar sem nýs meirihluta er beðið eftir nokkurt þóf við myndunarviðræður.

„Það eru tæpar 20 tillögur sem liggja fyrir fundinum, eins og sjá má á Borgarstjórn í beinni, og engin þeirra tillagna er frá flokkum sem nú eru að skoða meirihlutasamstarf,“ segir Þórdís Lóa, en Borgarstjórn í beinni má nálgast á vefsíðu borgarinnar.

Bendir oddvitinn á að enginn tillagnanna sé runnin undan rifjum þeirra fimm flokka sem nú skoða meirihlutasamstarf, það er að segja Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna, og þar sem tillögur fundar morgundagsins hefðu þurft að fara inn í dagskrá hans á föstudagsmorgun sem leið sé greinilega fátt tíðinda af nýjum meirihluta.

Gamalkunnar tillögur Sjálfstæðisflokksins

„Þannig að við höfum vitað það síðan fyrir helgi að þessir flokkar sem eru við samningaborðið munu ekki vera með neinar tillögur tilbúnar á morgun, hvorki um málefnasamning né um hlutverk. Þannig að við höldum bara fund með þessum tillögum sem nú liggja fyrir og lausnarbeiðni Kolbrúnar Baldursdóttur. Ég gef mér að þetta verði svona tilbrigði af bjöllufundi, eins og kallað er,“ heldur Þórdís Lóa áfram og er krafin skýringa á hugtakinu.

„Bjöllufundur er það kallað þegar engin mál liggja fyrir borgarstjórn nema fundargerðir. Þá er bjöllunni vanalega hringt og fundinum frestað þegar búið er að leggja fram fundargerðir,“ svarar borgarfulltrúinn. Slíkir séu algengir í upphafi árs þegar engin mál liggi fyrir. „En nú liggja fyrir 20 tillögur sem eru gamalkunnar tillögur frá Sjálfstæðisflokknum sem þeir leggja aftur fram og það er ekkert óeðlilegt við það. Þetta eru allt saman mál sem búið er að ræða oft, en ekkert óeðlilegt að þau séu lögð fram aftur þar sem nú eru breytingar á meirihluta,“ útskýrir Þórdís Lóa.

Tilbúin að hlaupa hratt

Kveðst hún gera ráð fyrir að á fundi morgundagsins komi fram tillaga um að fresta öllum málum nema téðri lausnarbeiðni Kolbrúnar og fundargerðum.

„Þá mun ég bera það upp og ef það er samþykkt frestum við fundi. Annars förum við í að ræða þessi 20 mál með tilheyrandi stuði,“ segir Þórdís Lóa af vendingum morgundagsins.

Þú sagðir í viðtali hér 9. febrúar að Viðreisn væri að skoða nýja möguleika varðandi myndun meirihluta, er eitthvað nýtt af þeim vettvangi?

„Nei nei, þessar meirihlutaviðræður eru í gangi og við sem erum ekki partur af þeim bíðum bara róleg. Annaðhvort fáum við fréttir af því að þær sigli í strand eða þær klárist – ef þær sigla í strand erum við tilbúin til að hlaupa hratt,“ svarar hún.

Hvað væri eðlilegur tími að þínu mati til að koma þessu í horf og ljúka viðræðum?

„Mér finnst eðlilegt að nota þessa viku í fráganginn, síðasta vika fór í alls kyns þreifingar og að átta sig á stöðunni. Nú eru tveir nýir flokkar í þessum meirihlutaviðræðum sem aldrei hafa komið að meirihlutasamstarfi áður á sveitarstjórnarstigi, Sósíalistaflokkurinn og Fólkur flokksins, þannig að hér þarf að gefa sér smá tíma, ég hef fullan skilning á því. Hér þarf að hlaupa í takt,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Viðreisnaroddviti að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert