„Ég held að við munum horfa upp á afdrifaríkar vikur fram undan. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um hvernig þær muni verða, en ég hef áhyggjur af því,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is þar sem hún er stödd í belgísku höfuðborginni Brussel þar sem hún mun sitja þriggja daga fund með þingmannahópi Atlantshafsbandalagsins NATO.
Þórdís Kolbrún er hins vegar nýkomin af hinni árlegu öryggisráðstefnu í München sem lauk í dag.
„Það er þungur og mikill skuggi yfir Evrópu,“ segir þingmaðurinn, sem sækir ráðstefnuna við þriðja íslenska stjórnmálamann, en auk hennar voru Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra viðstaddar.
Þórdís Kolbrún segir hörgul löngum hafa verið á skilningi á alvarleika stöðunnar, „heima á Íslandi, en víða annars staðar líka. Ég vona að það sé að breytast hratt, ég vona í einlægni að við tökum þessu alvarlega og gerum meira, við höfum hlutverki að gegna og ef við berum virðingu fyrir okkur sjálfum og stöðunni þá gerum við það,“ segir Þórdís Kolbrún og á þar væntanlega við hið langæja stríðsástand í Úkraínu þar sem nú hillir þó ef til vill undir vopnahlé.
„Þessi þróun, sem virðist vera nokkuð hröð þessa dagana og vikurnar, kallar á djúpan skilning á stöðunni og mér finnst skipta máli að við vöndum okkur og séum yfirveguð, staðföst og ábyrg, hömrum á því við okkur sjálf að vilja vera verðugur bandamaður. Við eigum rosalega mikið undir því að þetta fari ekki illa og mér finnst skipta miklu máli að vekja athygli á orðanotkuninni sem orðin er útbreidd núna þegar talað er um friðarviðræður,“ heldur hún áfram.
Telur hún nær lagi að tala bara um viðræður, alltént miðað við þann tón og þá útgangspunkta sem nú vitrast heimsbyggðinni. „Auðvitað á maður eftir að sjá nákvæmlega hvað gerist, en þetta eru viðræður um að stríði ljúki, þar sem Úkraínumenn eiga ekki sæti við borðið, Evrópa virðist ekki eiga sæti við borðið. Stríðinu gæti auðvitað lokið í dag. Rússar gætu farið af landsvæði sem er ekki þeirra og hætt að drepa fólk og drepa börn og stela þeim.“
Þórdís ræðir því næst um breyttan tón frá Bandaríkjunum. „Ef þú ert ekki við borðið þá ertu á matseðlinum og þessi tónn frá Bandaríkjamönnum er auðvitað alvörumál – en orð eru eitt og ákvarðanir annað, við þurfum bara að bíða og sjá,“ segir hún.
Kveðst hún lengi hafa lagt á það áherslu hvað nýr veruleiki geti haft í för með sér – stefnan sé enn í ranga átt. „Að því leytinu til held ég að það hafi bara verið ágætt að varaforseti Bandaríkjanna hafi verið þetta skýr í sinni ræðu,“ heldur þingmaðurinn áfram.
JD Vance varaforseti sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni á föstudag að kominn væri nýr lögreglustjóri í bæinn (e. new sheriff in town) sem væri Donald Trump forseti. Bæri hann með sér vatnaskil í samskiptum Bandaríkjamanna við bandalagsþjóðir þeirra Evrópumegin Atlantshafsins.
Ásakaði varaforsetinn evrópska leiðtoga því næst um ritskoðun samfélagsmiðla, afskipti af kosningum og brot gegn réttindum kristinna manna. „Ég trúi því að það að hundsa fólk, hundsa áhyggjur þess eða, og það sem er enn verra, að loka fjölmiðlum, blása af kosningar eða halda almenningi utan við pólitísk ferli skapi enga vernd,“ sagði Vance. „Í raun held ég að það sé ein öruggasta leiðin sem fyrirfinnst til þess að leggja lýðræðið í rústir,“ bætti hann við.
Þórdís Kolbrún segir Evrópu hafa getu til að gera mun meira og að atburðarásin næstu vikur verði vonandi sú að evrópsku ríkin stilli saman strengi sína og geri það sem þarf. „Ég er nú að sækja þessa öryggisráðstefnu fjórða árið í röð, en nú á öðrum forsendum. Ég er ekki lengur í ráðherraembætti og þá verða samtölin öðruvísi. Þegar maður á tugi óformlegra samtala á hverjum degi við alls konar fólk í alls konar stöðum teiknast upp ákveðin mynd og hún er því miður ekkert björt,“ segir Þórdís Kolbrún alvarleg í bragði og heldur áfram.
„Ég hef frá árinu 2021 haldið því til haga að við byggjum tilveru okkar, lífskjör og lífsgæði á að alþjóðakerfið haldi. Að friðurinn sem við búum við sé ekki okkar eigin heldur hvíli hann á þessu kerfi og samstarfi við bandamenn. Það eru blákaldir hagsmunir Íslands. Það hefur ekki verið eins augljóst og nú. Við okkur blasir nýr veruleiki og við verðum að taka honum alvarlega. Nú skiptir máli að mæta til leiks, vanda sig og gera það sem þarf.“
Finnst þér Evrópa vera að sigla inn í enn dekkri kafla eftir að hafa setið ráðstefnuna í München, hlustað þar á ræður og rætt við fólk?
„Tónninn á þessari ráðstefnu var ekki bjartsýniskenndur eða léttur, ég get ekki sagt það. Nú þurfa menn að skipta um gír og huga að annars konar leikplani,“ svarar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og lýkur þar með frásögn sinni af öryggisráðstefnunni í Suður-Þýskalandi, komin til Brussel á þingmannafund NATO.