Aðeins heilbrigðisstarfsfólk megi nota fylliefni

Eingöngu verður heimilt að gera útlitsbreytandi meðferðir með fylliefnum á …
Eingöngu verður heimilt að gera útlitsbreytandi meðferðir með fylliefnum á starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns. Ljósmynd/Colourbox

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýja reglugerð sem kveður á um takmarkanir á útlitsbreytandi meðferðum með fylliefnum. 

Í reglugerðinni er skilgreint hverjum sé heimilt að veita slíkar meðferðir og hvaða skilyrði þarf að uppfylla. 

Eftir gildistöku mega aðeins læknar með sérfræðileyfi í húðlækningum og lýtalækningum veita meðferðirnar, og læknar, tannlæknar og hjúkrunarfræðingar, hafi þeir aflað sér fullnægjandi þekkingar og hæfni til að veita meðferðina, greina og bregðast við fylgikvillum, eða hafi í þjónustu sinni þar til bæran lækni sem getur brugðist við í tæka tíð, að segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þá verður eingöngu heimilt að veita slíkar meðferðir á starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns sem hefur hlotið staðfestingu landlæknis um að reksturinn uppfylli faglegar kröfur. 

„Markmiðið er að tryggja öryggi þeirra sem undirgangast meðferð með fylliefnum sem er sprautað eða komið með öðrum hætti fyrir, í eða undir húð, í vöðva eða annan vef,“ segir í tilkynningunni.

Meðferð má ekki veita nema með samþykki

Aðrar hættuminni andlits- og húðmeðferðir, s.s. húðslípun, húðþétting og örnálameðferðir ásamt meðferðum sem framkvæmdar eru með lasertækjum falla utan við reglugerðina.

Tekið er fram að meðferð megi aldrei veita nema fyrir liggi undirritað samþykki þess sem meðferðina þiggur og samþykki skráð í sjúkraskrá.

„Hlutaðeigandi skal upplýstur bæði munnlega og skriflega um meðferðina, eðli hennar, líklegan árangur, hugsanlega fylgikvilla, kostnað o.fl. Heilbrigðisstarfsmaður skal tryggja að viðkomandi hafi nægan tíma til að kynna sér upplýsingar um fyrirhugaða meðferð og skal hún ekki veitt fyrr en hið minnsta tveimur sólarhringum eftir að upplýsingamiðlun fór fram.“ 

Reglugerðin tekur gildi 1. desember 2025, en þeir sem hyggjast veita slíkar meðferðir þurfa að tilkynna það til embættis landlæknis í síðasta lagi 1. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert