Áreittar af aðstoðarskólastjóranum og sögðu upp

Konurnar þrjár hættu en aðstoðarskólastjórinn hélt starf þar til dómur …
Konurnar þrjár hættu en aðstoðarskólastjórinn hélt starf þar til dómur féll í héraði. mbl.is/Eyþór

Þrjár ungar konur sem unnu í einum af grunnskólum Reykjavíkurborgar hrökkluðust frá störfum eftir að hafa mátt þola áreitni, meðal annars kynferðislega, af hálfu aðstoðarskólastjóra skólans.

Aðstoðarskólastjórinn er kona á sextugsaldri. 

Kveikur greindi frá málinu í kvöld en í þættinum var meðal annars rætt við konurnar þrjár.

Lýsir ein þeirra að aðstoðarskólastjórinn hafi á starfsmannaskemmtun árið 2019 ítrekað spurt hana hvort hún væri í nærbuxum undir kjólnum sem hún klæddist. Gekk aðstoðarskólastjórinn svo langt að rífa upp kjólinn til þess að athuga hvort hún væri í nærbuxum. 

Fór að líða illa í vinnunni

Unga konan, Heba Líf Ásbjörnsdóttir, segir að starfsmenn hafi rætt það sín á milli hvernig konan hegðaði sér undir áhrifum áfengis en hún taldi að ekkert yrði gert í málinu myndi hún segja frá því. 

Atvikið varð til þess að Hebu fór að líða illa í vinnunni og kveið hana fyrir því að þurfa að mæta í vinnu á morgnana. Hún endaði nokkrum mánuðum síðar í veikindaleyfi eftir að hafa fengið nóg. Hún snéri þó aldrei aftur til starfa og sagði að lokum upp störfum hjá skólanum. 

Snéri aftur til starfa eftir niðurstöðu borgarinnar 

Tvær aðrar konur lýsa ámælisverðri hegðun aðstoðarskólastjórans í viðtali við Kveik. Ein þeirra er Fjóla Dögg Blomsterberg en hún starfaði sem námsráðgjafi við skólann. Hún starfaði náið með aðstoðarskólastjóranum sem hún segir hafa verið afar erfitt.

Á starfsmannaskemmtun starfsmanna skólans árið 2021 varð Fjóla meðal annars vitni að aðstoðarskólastjóranum elta og áreita tvær stúlkur á tvítugsaldri sem störfuðu í skólanum auk þess sem konan káfaði á brjóstum Fjólu í tvígang umrætt kvöld. 

Fjólu bauðst svo að skipta um starf tímabundið, sem hún svo gerði, en hún snéri ekki aftur til starfa í skólanum. Eftir að hún sagði upp störfum tilkynnti hún atvikið til Kennarasambands Íslands og hafði sérfræðingur stéttarfélagsins samband í kjölfarið þar sem málið sló hana. 

Í kjölfarið tilkynntu konurnar þrjár nokkur tilvik áreitni aðstoðarskólastjórans til Reykjavíkurborgar og var málið þá komið í ferli.

Niðurstaða Reykjavíkurborgar var sú að aðstoðarskólastjórinn hefði gerst sekur um áreitni í þrígang gagnvart konunum, óviðeigandi og óæskilega hegðun í tveimur tilvikum og kynferðislega áreitni í tveimur tilvikum. 

Konurnar lýsa því að þegar þessi niðurstaða hafi legið fyrir hafi það verið eins og málinu væri lokið í augum Reykjavíkurborgar en konan snéri aftur til starfa eftir niðurstöðu borgarinnar. 

Unnu málið í héraði

Fjóla og Heba enduðu á að kæra málið til lögreglu og var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári.

Konan játaði brot sín fyrir dómi og var hún dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða hvorri konu fyrir sig 500.000 í miskabætur. 

Eftir dóminn gat Reykjavíkurborg ekki lengur haft konuna í starfi við skólann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert