Birtingarmynd af skóla án aðgreiningar?

„Ég myndi segja að það sé búið að stíga inn …
„Ég myndi segja að það sé búið að stíga inn af miklum þunga,“ segir Árelía um viðbrögð borgarinnar eftir umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins um vandann í Breiðholtsskóla. Samsett mynd

Formaður skóla- og frístundaráðs segir að ofbeldis- og eineltisvandinn í Breiðholtsskóla, sem umfjöllun mbl.is varpaði ljósi á fyrir rúmri viku, sé ef til vill birtingarmynd stefnu menntayfirvalda um skóla án aðgreiningar.

Faðir barns í skólanum, sem mbl.is hefur rætt við, sendi skóla- og frístundasviði borgarinnar ítrekað tölvupósta þar sem hann reyndi að vekja athygli á alvarleika vandans.

Formaðurinn, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, segir að verið sé að stíga inn í málið af miklum þunga í kjölfar umfjöllunarinnar. Hún segir þó erfitt að meta af hverju skólayfirvöld hafi ekki áttað sig fyrr á vandanum.

Ráðið kemur saman til sérstaks aukafundar á morgun, miðvikudag, þar sem eingöngu á að taka fyrir ofbeldis- og eineltismál.

Afar sjaldgæft

Að sögn Árelíu var boðað til fundarins í gær, í ljósi þeirrar miklu umræðu sem spratt upp í kjölfar þess að mbl.is og Morgunblaðið greindu frá vandanum mánudaginn 10. febrúar.

Fundur ráðsins sem var á dagskrá í síðustu viku var felldur niður vegna meirihlutaviðræðna.

Hefur ofbeldis- og eineltisvandinn í Breiðholtsskóla áður verið til umræðu í ráðinu?

„Nei. Við höfum rætt ofbeldis- og eineltismál per se, en ekki Breiðholtsskóla sérstaklega. Það er í raun afar sjaldgæft að við tökum til umræðu einstaka skóla, nema það gerist eitthvað eins og með þessum hætti,“ segir Árelía og tekur fram að málið hafi þó verið til vinnslu innan sviðsins í töluverðan tíma.

Vissi af vandamálinu

En hefur þú vitað af þessum vanda?

„Já. Það er þannig að ég, sem formaður skóla- og frístundaráðs, er mjög oft meðvituð um einhvern vanda sem kemur til, og það er þá vegna þess að það er hugsanlegt að sviðsstjóri ræði það við mig og við förum yfir stöðuna á málinu, eða þá að það sé haft samband við mig, og í öllum tilfellum þegar það er haft samband við mig, þá fylgi ég því eftir.“

Skóla- og frístundasvið virðist nú vera að bregðast við þessum vanda með einhverjum aðgerðum. Hverjar eru þær?

„Það er í fyrsta lagi búið að halda fundi með foreldrum. Það er búið að halda fundi með starfsmönnum og setja inn stuðning fyrir stjórnendur og það er búið að setja inn stuðningsfulltrúa og kennsluráðgjafa.“

Bætir hún við að svokölluð Suðurmiðstöð borgarinnar, ein fjögurra, hafi einnig komið að málinu með frekari stuðning, auk þess landsteymis sem komið var á fót með nýlegum farsældarlögum.

„Ég myndi segja að það sé búið að stíga inn af miklum þunga.“

Víðtækara samfélagsmál

Er þetta allt bara á síðustu viku eða svo, frá því greint var frá vandanum?

„Já, stærsti hlutinn af þessu. Auðvitað var búið að vinna í þessu. Hverfisskrifstofan var búin að vera að vinna með þetta mál og þeir fagaðilar. En þessar aðgerðir núna, já.“

Árelía segir að sér finnist sem horfa þurfi á þetta sem víðtækara samfélagsmál.

„Við erum að takast á við fleiri mál sem snúa að ofbeldi meðal barna. Við höfum náttúrulega frá fornu fari tekist á við einelti með einum eða öðrum hætti. En eins og hefur bara birst, undanfarin ár – frá því ég tók við, það eru þrjú ár – þá höfum við haft þungar áhyggjur og aðgerðir gagnvart unglingamenningu.“

Samfélagið þurfi að nema staðar og velta fyrir sér hvernig hægt sé að stemma stigu við þessari þróun.

„Þetta hefur náttúrulega líka komið fram mjög sterkt í umræðum kennara og skólastjórnenda, sem hafa undanfarið lýst því hvernig þetta sé þyngri róður.“

Ekki látið málið afskiptalaust

Þó að þið stígið inn af þessum þunga núna, og það má vona að allt sé á réttri leið – hefur borgin ekki brugðist í þessu máli?

„Við erum alla vega – við sjáum það alla vega núna að það sem við vorum að gera dugði ekki til. Hugsanlega hefðum við átt að stíga fastar niður.

En þetta er eitt af því sem er – í mannanna öllum verkum, þá getur verið erfitt að meta: Hvenær erum við að gera nóg? En eftir á að hyggja þá sjáum við: Nei, við hefðum kannski átt að gera meira fyrr.

En þetta er ekki þannig að við höfum látið þetta afskiptalaust. Eins og með allt, þá getur maður séð kannski eftir á að það hefði kannski mátt stíga inn af meiri þunga fyrr.“

Innan skólakerfis borgarinnar gætti óánægju með umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is …
Innan skólakerfis borgarinnar gætti óánægju með umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is 10. febrúar, sem varpaði ljósi á vandann, hratt af stað mikilli umræðu og varð til þess að skólayfirvöld brugðust við með aðgerðum. mbl.is/Karítas

Kannski ekki meðvituð um annan stuðning

Þetta mál færist í brennidepil þegar við tölum við foreldra fjögurra barna í skólanum, í Morgunblaðinu á mánudag, sem greina frá ofbeldi, einelti og úrræðaleysi skólayfirvalda. Svo koma kennararnir og starfsfólk núna á föstudaginn og staðfesta allt þetta, segja sína hlið og lýsa sama úrræðaleysi skólayfirvalda. Hvernig svarið þið því?

„Ég held að það sem þarna blasi við sé í rauninni – við þurfum að átta okkur á því að við erum kannski að fást við eitthvað einstakt mál, eins og þarna. Það sem blasir við er að þeir sem eru í skólanum upplifa það sem úrræðaleysi þegar ekki hefur tekist að koma í veg fyrir þetta. 

Sem náttúrulega reynist rétt að því leyti til að atburðarásin stoppar ekki. Þannig að í rauninni má segja að í báðum tilfellum hafi þau rétt fyrir sér. Bæði foreldrar og þeir sem í skólanum starfa hafa rétt fyrir sér, að því leyti til.

En þau kannski eru heldur ekki meðvituð um með hvaða hætti sé búið að vera að setja inn stuðning. Því að stuðningur, sérstaklega þegar kemur að börnum og einstökum málum – hann getur reynst vera til staðar þrátt fyrir að fólk sé ekki meðvitað um það.“

Komin að öðru stóru máli

Þegar þú talar um að setja inn stuðning, hvað þýðir það?

„Svona mál varða í rauninni þrennt. Þau varða skólann, svo varða þau velferðina – barnaverndina. Farsældin, þarna er farsældin sem þarf að koma inn. Þannig að þrátt fyrir að verið sé að vinna að úrlausnarefnum, þá er ekki endilega þannig að allir séu meðvitaðir um það.“

En ef kennarar, starfsfólk og foreldrar segja öll sömu söguna af úrræðaleysi í kerfinu – eins og aðstoðarskólastjórinn segir okkur, að það vanti kannski bara fleiri sérskóla. Það vanti einhvern stað fyrir börn sem eru með hegðunarvanda. Einhvern sérhæfðan skóla, þar sem hægt er að taka á þessu. Þau eru öll að lýsa þessum vanda. Þá er varla hægt að svara því með því að segja að þau viti ekki alveg hvað sé verið að gera á bak við tjöldin.

„Nei, alls ekki. Og það má alls ekki taka því þannig. Ég bara meina, af hverju þetta birtist svona gagnvart þeim. En þá erum við komin að öðru stóru máli, sem er skóli án aðgreiningar,“ segir Árelía og vísar til ríkjandi stefnu í íslensku menntakerfi sem orðið hefur umdeildari að undanförnu.

Birtingarmynd af skóla án aðgreiningar

„Þetta er í rauninni kannski einhvers konar birtingarmynd af skóla án aðgreiningar, sem er bara stærri pólitísk spurning. Við erum náttúrulega búin að samþykkja skóla án aðgreiningar, og rekum skólana okkar með þeim hætti, og það er þá í rauninni önnur spurning hvort það sé eitthvað sem við viljum breyta.

En við erum komin mjög langt og það hefur gengið mjög vel. Við stöndum samt núna frammi fyrir fjölbreyttari vanda.“

En það hefur náttúrulega ekki gengið vel, ef maður horfir á árangur íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði. Þá hefur gengið illa.

„Já, við komum illa út. Það er bara þannig. Við erum ekkert að sykurhúða það. En það sem gleymist í þessum samanburði er í fyrsta lagi að við höfum verið að fara í gegnum örari samfélagslegar breytingar – eins og þetta dæmi er um – heldur en nokkur önnur lönd hafa farið í gegn um.“

„Gjörsamlega breyttar forsendur“

Árelía bendir á að í sífelldum samanburði við Norðurlöndin sé oft ekki tekið með í reikninginn að samfélagslegar breytingar þar, sem snúi að fjölbreyttara samfélagi, hafi átt sér stað yfir miklu lengra tímabil en hér á landi.

„Þannig að við erum í rauninni með gjörsamlega breyttar forsendur, þar sem tuttugu prósent af okkar nemendum tala ekki íslensku eða eru með annan tungumálabakgrunn, sem gerir mörg aðkallandi verkefni miklu stærri.“

Hvað varðar slæmar niðurstöður Íslands í PISA nefnir Árelía einnig að fámennir skólar á landsbyggðinni geti skekkt samanburðinn.

„En við þurfum að horfast algjörlega í augu við það að þessar niðurstöður segja okkur sögu sem skiptir máli að takast á við, eins og það að skerpa náttúrufræðikennslu og á öðrum þeim þáttum þar sem okkar nemendur eru að koma verr út.“

Niðurstöður PISA eigi sér þó líka jákvæðar hliðar, á borð við að íslenskum nemendum líði almennt vel í skólanum og að þeir treysti almennt kennurum sínum betur.

Árelía segir að horfast þurfi í augu við agaleysi í …
Árelía segir að horfast þurfi í augu við agaleysi í grunnskólum. mbl.is/Karítas

Raunveruleikinn í hverjum bekk

Föllumst á að þessar samfélagslegu breytingar geti verið stór hluti af ástæðunni fyrir slæmu gengi íslenskra barna í PISA. Hlutfallslega færri tali hér málið en áður og að auknar áskoranir séu í kerfinu. Samt sem áður er hlutfall afburðanemenda mjög lágt hér í þessum sama alþjóðlega samanburði. Þessar breytingar ættu ekki að valda því endilega.

„Já, ég veit það. Það er eitt af því sem við þurfum að skoða. Það er, af hverju sjáum við fækkun í þeirra röðum. Það skiptir máli að reyna að finna út úr því og það eru alls konar þættir sem geta haft þar áhrif.

Ég er alveg sammála því. Við getum líka bara sagt að raunveruleikinn í hverjum bekk fyrir sig er þannig að það getur verið erfiðara að finna þá sem eru annað hvort yfirburða eða draga sig aftur úr.“

Stöndum við á krossgötum?

Og þá erum við aftur að tala um stefnuna um skóla án aðgreiningar. Erum við kannski komin á einhverjar krossgötur og þurfum að horfast í augu við hvort við viljum halda áfram á þeirri braut?

Árelía vill hvorki játa því né neita en segir að horfa þurfist einnig í augu við agaleysi í grunnskólunum.

„Það tekur íslenskan kennara ellefu mínútur að ná þögn í skólastofu, sem er mun lengri tími en annars staðar. Við erum í þessu samfélagi sem hefur byggst á frelsi, sem er frábært, en við verðum líka að átta okkur á að það er ákveðið agaleysi og virðingarleysi gagnvart skólastarfi sem hefur viðgengist hérna á Íslandi.

Þetta gerir það að verkum að starfið innan skólanna verður mjög þungt. Að ég tali ekki um þegar við erum líka í þeirri stöðu að kennarar, eins og hefur verið lýst, þori hreinlega ekki að beita sér vegna þess að þú átt alltaf á hættu að fá á þig kæru.

Við þurfum einhvern veginn að taka höndum saman um að mynda skjaldborg utan um skólana, hefja skólastarfið og kennarann til vegs og virðingar aftur, þannig að kennarar geti viðhaldið aga. Þetta er bara einhver þróun sem hefur átt sér stað á tiltölulega löngum tíma. Þetta er ekki eitthvað sem hefur gerst á þremur árum.“

Af hverju sáum við það ekki fyrr?

Þú talar um að þið séuð núna að stíga inn af miklum þunga, sem verður að teljast jákvætt. En bendir sá þungi ekki til þess að þessi vandi hafi verið trassaður. Að þetta öryggisleysi og þessi vanmáttur, sem foreldrar og kennarar upplifa, hafi verið á rökum reistur.

„Nei, ja, sko,“ svarar Árelía og tekur dæmi sem hún segir þó óskylt málinu.

„Segjum sem svo að þú fáir inn starfsmann, sem tekst á ótrúlega skömmum tíma að eyðileggja frábæra menningu sem þú ert með. Þá sérðu það yfirleitt eftir á, að þú hefðir átt að taka miklu fyrr á vandanum.

Þetta er bara nákvæmlega það sama. Við erum alltaf að reyna að fara mildilega inn og bera virðingu fyrir þeim sem það á við, sem eru þá börnin, kennarinn, skólinn og allt þetta. Svo þarna sjáum við eftir á: Já, bíddu, við hefðum átt að taka miklu fyrr í taumana.“

Hún segist geta fullkomlega viðurkennt að sú sé raunin í þessu máli.

„Það er enginn að efast um það. Við erum öll sammála um það. En af hverju sáum við það ekki fyrr? Það er svolítið erfitt að meta það. Maður sér það bara alltaf eftir á. 

En í öllum okkar skólum erum við að bregðast við og það er aðallega það, sem skiptir máli gagnvart okkar stjórnendum, sem eru hundrað og fimmtíu talsins. Að þeir upplifi það að við séum ekki kerfi sem hreinlega lætur þau einhvern veginn alein.

Svo ég tali nú ekki um foreldrana, sem einhvern veginn enginn er að grípa.“

Árelía talar um gjörsamlega breyttar forsendur í grunnskólunum.
Árelía talar um gjörsamlega breyttar forsendur í grunnskólunum. mbl.is/Eyþór

Dapurlegt þegar greint var frá vandanum

Eins og áður sagði var fyrst greint frá vandanum í Breiðholtsskóla með viðamikilli umfjöllun í Morgunblaðinu mánudaginn 10. febrúar, þar sem rætt var við foreldra fjögurra barna auk aðstoðarskólastjóra skólans og þannig reynt að varpa ljósi á báðar hliðar málsins.

Segja má að umfjöllunin hafi hrundið af stað aðgerðum í skólakerfi borgarinnar og orðið til stóraukinnar vitundarvakningar um ofbeldi á meðal barna. Þá hefur Alþingi tekið málið fyrir.

Samt sem áður bar á óánægju innan skólakerfisins með umfjöllunina.

Björn Gunnlaugsson, skólastjóri Laugarnesskóla, sagði þannig að það væri „alltaf jafn dapurlegt þegar fjölmiðlar taka sig til og birta einhliða frásagnir fólks úti í bæ af því hvað gangi á inni í hinum eða þessum skóla, vitandi að skólinn sjálfur má ekki leiðrétta rangfærslur eða yfirhöfuð tjá sig um einstök mál“.

Starfsfólk skólans hefur í kjölfarið stigið fram og lýst því sama og foreldrarnir og aðstoðarskólastjórinn höfðu þegar gert. Það er, að viðvarandi ofbeldis- og eineltisvandi væri innan veggja skólans og að skólayfirvöld skorti úrræði til að takast á við hann.

Getur alltaf komið fyrir

„Vönduð fjölmiðlaumfjöllun um þau mál sem koma upp getur orðið til þess að ekki síst vekja almenning til vitundar um það sem er að gerast. Það er bara vont þegar hún beinist einhvern veginn gegn einhverjum, býr til einhverja óvini og vini,“ segir Árelía.

Að lokum tekur hún fram að í skólum borgarinnar sé frábært fagfólk að störfum sem sé að gera sitt besta.

„En svona getur alltaf komið fyrir, eins og þarna. Og er alls staðar, þar sem mennirnir vinna saman. Því miður þá var þetta búið að vera of lengi. Það er enginn að draga fjöður yfir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert