Bjartsýni og blús og gleðileg jól hjá Ingu

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra, vildi ekki svara því hvers vegna flokkur hennar lét hjá líða að halda landsfund á árunum 2022 og 2023, en árið 2024 bar hún meðal annars fyrir sig önnum í þinginu. Landsfundarleysi flokksins segir hún ástæðuna fyrir því að flokkurinn hafi ekki verið skráður sem slíkur með. Flokkurinn fékk 240 milljónir króna úr ríkissjóði, þrátt fyrir að standast ekki þau lagaskilyrði.

Heimir Már Pétursson, nýráðinn upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, blandaði sér í leikinn í miðju viðtali, sem lauk skömmu síðar með því að Inga Sæland kvaddi og gekk á braut í miðjum klíðum.

Viðtalið í heild sinni má sjá í myndbandsspilaranum hér ofar.

Ekki innanbúðar á skrifstofu flokksins

Landsfundurinn barst í tal í kjölfar þess að Inga var spurð út í tilkynningu sem Flokkur fólksins sendi Skattinum í byrjun síðasta árs í viðleitni sinni til þess að fá flokkinn skráðan sem stjórnmálasamtök að rekstrarformi. Áður hafði Inga sagt að henni hefði ekki verið kunnugt um „formgallann“ fyrr en síðasta haust.

Inga svaraði því til að henni hefði kannski ekki verið kunnugt um það, það væru starfsmenn Flokks fólksins sem hefðu séð um þetta og hún, formaðurinn, væri ekki innanbúðar á skrifstofu flokksins. Starfsmaðurinn, sem annaðist málið er Baldvin Örn Ólason, sonur Ingu.

En nú ert þú meðal þeirra sem undirrita tilkynninguna, þannig að það hlýtur að hafa verið einhver umræða um þetta þarna fyrir rúmu ári síðan en ekki bara síðastliðið haust?

„Lögheimilið var skráð heima hjá mér, af því ég fæddi nú flokkinn heima hjá mér, og ég vildi gjarnan losna við hann og koma honum í Fjörgyn þar sem flokkurinn var búinn að eiga heima í tvö ár, en þá kemur það líka í ljós að það verður að gera með samþykktum og þeim verður ekki breytt nema á landsfundi þannig að það verður allt mjög fallegt á laugardaginn kemur og þú átt eftir að vera voða glöð.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og ráðherra. mbl.is/Eyþór Árnason

Baldvin Örn svaraði Skattinum því til í byrjun mars 2024 að landsfundur yrði haldinn mjög bráðlega en svo var hann ekki boðaður fyrr en í nóvember og frestað nokkrum dögum síðar. Hvers vegna var hann ekki boðaður fyrr?

„Það komu alls konar uppákomur upp sem að hreinlega komu í veg fyrir það. Við vorum að láta okkur dreyma um að halda hann í maí í fyrravor, en bæði vegna anna í þinginu og ýmissa ástæðna, sem ég ætla nú ekki að tíunda hér, þá urðum við að fresta honum. Ef við hefðum getað haldið hann í nóvember síðastliðnum eins og við ætluðum okkur, þá hefði náttúrulega þessi umræða okkar ekki verið hér og nú.“

Svarar ekki fyrir landsfundarleysi

Þú hefur vísað til þess að það hefði ekki verið hægt að halda landsfundinn í nóvember vegna þingkosninga og áður vegna covid. En nú lauk covid í byrjun árs 2022, svo af hverju var ekki haldinn landsfundur 2022 eða 2023? Þetta er svolítið langur tími sem maður getur ekki séð að það hafi verið málefnalegar ástæður fyrir því að halda ekki fund?

„Nei, elsku Andrea, þú sérð kannski ekki þessar málefnalegu ástæður en það geri ég hins vegar. Svona er staðan, það er landsfundur á laugardaginn kemur, allt verður frábært, eins og allt sem að lýtur að Flokki fólksins, okkar fjárreiður og okkar endurskoðuðu ársreikningar sem allir geta skoðað á vef Ríkisendurskoðunar, þannig að hjá okkur eru bara bjartsýni og blús, gleðileg jól og landsfundur á laugardaginn.“

En hverjar eru þessar málefnalegu ástæður, þetta er langur tími. Hvers vegna var hann ekki haldinn allan þennan tíma?

„Ég verð nú að segja eitt að núna klukkan hálf eitt er mér að hlotnast sá heiður að fá að afhenda dásamleg verðlaun niðri í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þannig að ég ætla nú frekar að drífa mig þangað og segja bara yndislegt að sjá þig alltaf hreint.“

Upplýsingafulltrúi blandar sér í leikinn

En ég er ekki búin með spurningarnar mínar.

„Ég er alveg á „hurry“ og ég á eftir að hitta valkyrjurnar hérna til þess að ræða eitthvað og ég er bara með 20 mínútur, Andrea mín.“

Það myndi flýta fyrir ef þú myndir bara svara spurningunni.

„Það er ekkert um að segja, fundurinn er á laugardaginn kemur, 22. febrúar, það er ekkert meira um það að segja. Eigum við ekki bara að vera bjartsýn og brosandi og halda áfram veginn í stað þess að vera í einhverju fótabaði í fortíðinni?“

Á þessum tímapunkti blandar nýráðinn upplýsingafulltrúi flokksins, Heimir Már, sér í viðtalið og sagði meðal annars að Flokkur fólksins hefði bara sínar ástæður fyrir því hvenær hann heldur landsfund. Þegar hann hafði lokið máli sínu hélt blaðamaður viðtalinu við Ingu áfram.

Hvers vegna undirrituðu ekki allir stjórnarmenn og varamenn tilkynninguna sem var skilað til Skattsins?

„Það verða stundum breytingar innan stjórnar og jafnvel gæti hugsast að fólk félli frá eða hvað eina annað sem er, en það er algjört aukaatriði því við þurfum landsfund, það er alveg sama hvort við værum með 9 eða 900 manna stjórn að það hefði engu breytt hjá Fyrirtækjaskrá, við gátum ekki uppfyllt formgallanna nema á landsfundi og eins og ég segi aftur, sjáumst á laugardaginn, vertu velkomin. Takk fyrir mig, ég er farin,“ sagði Inga og gekk sína leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert