Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir íslensk yfirvöld nú skoða þau ummæli sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lét falla í gær á samfélagsmiðlinum X. Þar kvaðst hann leggja virðisaukaskatt á innfluttar vörur að jöfnu við tolla, virðisaukaskatturinn sé enn harðari refsing ef eitthvað. „Að senda varning, vöru eða eitthvað, hverju nafni sem nefnist, gegnum annað land í því augnamiði að skaða Bandaríkin með óheiðarleikann að vopni verður ekki liðið,“ skrifaði Trump á X í gær.
Á Íslandi er notast við virðisaukaskattskerfi, líkt og víðast hvar í Evrópu, Asíu, Suður-Ameríku, Kanada og Mexíkó. Bandaríkin, líkt og nokkur lönd í Miðausturlöndunum og Afríku og í nokkrum fjölda eyríkja, notast hins vegar við söluskatt. Hvorugt kerfið er ígildi tolls, en Trump segist í færslunni leggja þau að jöfnu.
„Við erum að skoða þetta, ég vil tala varlega þegar kemur að þessu, en við erum að hugsa ýmsar sviðsmyndir sem upp geta komið í viðskiptum á milli þessara tveggja vinaþjóða,“ segir Þorgerður þegar hún er innt eftir afstöðu íslenskra stjórnvalda við þessu útspili Trumps.
Ítrekar hún að samskipti ríkjanna hafi verið farsæl fram til þessa. „Ég vona að það verði engin breyting þar á. Það er oft skilningur á okkar umhverfi þegar við höfum farið í það að ræða við bæði embættismenn og ekki síður pólitíska fulltrúa bæði innan þings og í ríkisstjórn,“ segir Þorgerður.
Hún ítrekar fyrri afstöðu sína þegar komið hefur að umræðum um mögulegt tollastríð milli Evrópu og Bandaríkjanna og segir skipta máli að Ísland lendi ekki í skotlínunni ef þessar tvær blokkir fara í tollastríð.
„Við erum að skoða stóru myndina af því hvaða tolla nákvæmlega hann er að meina og rýna eins og þarf þegar koma yfirlýsingar frá Trump, ekki síst á X, hver raunverulegur hugsunarháttur er á bak við það,“ segir Þorgerður enn fremur um ummæli Trumps.
Mesti vöruútflutningur frá Íslandi til Bandaríkjanna er í formi sjávarafurða, eldislax og tækja og læknavara. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af þessum greinum verði tollar settir á hjá Bandaríkjunum segir hún Ísland eiga einn ás upp í erminni.
„Eins og staðan er núna hef ég ekki áhyggjur nákvæmlega miðað við það sem ég er að sjá og vísbendingar í fyrsta kastið, en við erum að fara yfir þetta. Þetta er gríðarlega mikilvægur markaður fyrir okkur, en ég held að Trump skilji líka þegar við bendum honum á að vöruskiptajöfnuður gagnvart Bandaríkjunum er jákvæður Bandaríkjunum í hag samkvæmt okkar tölum. Það hjálpar okkur í þessum málum.“
Þorgerður ítrekar að lokum að samskipti ríkjanna hafi verið mjög góð, „en við erum viðbúin og tilbúin og erum að skoða hvað hægt er að gera.“