Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir helstu niðurstöðu eftir öryggisráðstefnuna í München í Þýskalandi um helgina og aðra atburði í alþjóðamálum vera þá að Evrópa sé að stíga upp og axla aukna ábyrgð á varnar- og öryggismálum.
Hún segir ákveðin straumhvörf nú eiga sér stað á alþjóðasviðinu og að Evrópa sé að þétta raðirnar. Ísland þurfi að vera fullir þátttakendur í þeirri heild sem sé að myndast í Evrópu. Þetta sagði hún í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Síðasta vika hefur verið mjög viðburðamikil á alþjóðasviðinu eftir yfirlýsingar frá Bandaríkjunum í tengslum við Úkraínu, símtal Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, ræðu J.D. Vance, varaforseta Bandaríkjanna, á öryggisráðstefnunni, neyðarfund leiðtoga Evrópuríkja í París og svo fundar utanríkisráðherra Bandaríkjanna með utanríkisráðherra Rússlands í Sádí-Arabíu til að ræða mögulegar friðarviðræður. Voru Evrópuþjóðir og Úkraína hvergi nærri á þeim fundi.
Fundinum í Sádí-Arabíu lauk síðdegis í dag, en rætt var við Þorgerði á hádegi. Þorgerður gerir athugasemdir við þennan fund stórveldanna um framtíð Úkraínu.
„Það er eitthvað skrítið við það þegar Rússar og Bandaríkjamenn setjast niður í Sádí-Arabíu að ræða um Úkraínu og öryggi Evrópu. Það er eitthvað sem í mínum huga stemmir ekki. Hvað kemur út úr þessum fundi, ég vona að það verði ekki Pútín sem verði sterki maðurinn, heldur að það verði frjáls og friðsöm Úkraína og það sama gildir um Evrópu. Þar liggja okkar hagsmunir.“
Segir hún að ef ekki náist friður og Úkraína verði sjálfstæð og frjáls, þannig að réttlátur og langvarandi friður ríki í Úkraínu, þá sé öryggi í Evrópu ógnað.
Spurð út í neyðarfund leiðtoga sjö Evrópuríkja í gær vegna ákvörðunar Bandaríkjanna og Rússlands að funda án aðkomu annarra, segir Þorgerður að það jákvæða sem hafi komið út úr þeim fundi hafi meðal annars verið að þátttaka Úkraínu í bæði Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu hafi ekki verið sett út af borðinu.
„Það er ekki Rússa að ákveða það og það er ekki Bandaríkjamanna að ákveða það. Bandaríkjamenn geta í eina röndina ekki krafist þess að Evrópa stígi upp, sem hún er að gera og ætlar að fjárfesta meira í vörnum og öryggi, veita þessar efnahagslegu og varnarlegu ábyrgðir sem verið er að biðja um, en segja síðan „þið hafið ekkert um það að gera hvað er samið um.“ Þetta kemur ekki heim og saman,“ segir Þorgerður.
Segir hún gott að sjá sterkan vilja Evrópu í þessu máli. „Hún [Evrópa] þarf að stíga upp og axla þessa ábyrgð. Bandaríkin eru meira með hugann við Kína og Suður-Kínahaf. Það þýðir að Evrópa þarf að passa upp á sitt öryggi sjálf og það er það sem hún er að gera núna,“ bætir Þorgerður við.
Eftir atburði liðinnar viku, hvernig metur Þorgerður samstöðu Evrópuþjóða og Bandaríkjanna.
Erum við í öðrum heimi í alþjóðamálum en áður?
„Það eru ákveðin straumhvörf. Það sem ég skynja, Evrópa er að þétta raðirnar. Það er mjög mikilvægt. Hún þurfti að gera það og er að gera það. Þá skiptir máli fyrir okkur Íslendinga að vera fullir þátttakendur í því að vera hluti í þeirri heild sem er að myndast. Þá er ég ekki bara að tala um Evrópusambandið, heldur önnur ríki sem eru ekki í Evrópusambandinu eða Nató. Það finnst mér hafa komið gott út úr ráðstefnunni. Evrópa er á varðbergi,“ segir Þorgerður.
Tekur hún fram að Ísland hafi átt gott samstarf við Bandaríkin í gegnum tíðina og að hún voni að það verði raunin áfram. Hins vegar sé greinilegt að Ísland þurfi að eiga meiri samskipti við Bandaríkin.
Horfir þú á Bandaríkin sem fullkomna bandalagsþjóð áfram?
„Ég vil einfaldlega horfa á Bandaríkin sem mikilvæga þjóð fyrir okkur Íslendinga, bæði verandi í Nató og líka að vera með tvíhliða varnarsamninginn sem hefur verið í gildi frá 1951. Sama hvoru megin forsetar hafa verið, hvort sem þeir hafa verið demókratar eða repúblikanar, þeir hafa viljað standa við þann samning og ég vona að það verði ekki breyting á því.“
Spurð að lokum hvort hún óttist að breytingar geti orðið á þeirri stöðu milli þjóðanna segir Þorgerður: „Við erum að skoða ýmsa hluti og erum á varðbergi og áttum okkur á því að hlutirnir eru að breytast og við náttúrulega erum að meta stöðuna út frá þessum breytta veruleika.“