Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að það myndi koma sér verulega á óvart ef Samkeppniseftirlitið myndi samþykkja samruna Íslandsbanka og Arion banka út frá fyrri ákvörðunum eftirlitsins. Þá segir hún að ef af samrunanum yrði myndi hún hafa áhyggjur af samkeppni á bankamarkaði.
„Þessi tímasetning kom mér á óvart. Það breytir því ekki að þetta er þeirra [stjórnar Arion banka] ákvörðun að leggja af stað í þessa vegferð,“ segir Kristrún spurð um hvort tímasetning tilkynningar Arion banka hafi komið sér á óvart, en tilkynning var send út á föstudaginn, skömmu eftir að fjármálaráðuneytið tilkynnti um að opið almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka yrði á „næstu misserum.“
Spurð út í afstöðu sína til mögulegrar sameiningar bankanna segist Kristrún skilja vel sjónarmið um aukna skilvirkni, en að fleira þurfi að skoða til að gæta hagsmuna almennings.
„Við verðum náttúrulega að leyfa þessu að fara í ákveðið ferli núna. Stjórn Íslandsbanka er með þetta til umræðu. Ég get þó sagt út frá almennum forsendum, miðað við fyrri ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins á fjármálamarkaði, þá kæmi það verulega á óvart að slíkur samruni yrði samþykktur.
Og ef ég svara út frá minni eigin pólitísku skoðun og okkar eigin forsendum í þessari ríkisstjórn, þá er það svo að við erum kosin til að gæta almannahagsmuna. Ég skil alveg þau sjónarmið að fólk vilji aukna skilvirkni, það vilji hagræðingu í bankakerfinu. En markaðslegt aðhald og samkeppnisforsendur skipta líka gríðarlegu máli og þetta er alveg svona klippt og skorið og ég myndi hafa áhyggjur af samkeppnisstöðu á bankamarkaði ef slíkur samruni færi í gegn,“ segir Kristrún.
Telur þú þennan samruna þá óheppilegan fyrir neytendur?
„Ég ítreka það sem ég segi, þarna takast á tvö sjónarmið. Hagræðing og skilvirkni og svo markaðslegt aðhald. Hagræðing og skilvirkni rennur fyrst og fremst til neytenda ef það er markaðslegt aðhald. Við værum komin í allt aðra stöðu á bankamarkaði ef hér væru tveir stórir bankar, báðir bankar með umtalsvert eignarhald hjá ríkinu. Annar í 100% eignarhaldi og hinn kannski í 20% eftir slíkan samruna,“ svarar Kristrún.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði um helgina að það væri hlutfallslega of dýrt að starfrækja þrjá kerfislega banka í kerfi eins og á Íslandi. Spurð út í þessa afstöðu Benedikts segir Kristrún að hægt sé að nota slík rök fyrir f lesta starfsemi á Íslandi. Bendir hún á að hér búi aðeins um 400 þúsund manns sem sé á við lítið bæjarfélag í fjölmennari ríkjum.
„Það væri auðvitað út frá hreinni hagfræði hægt að sameina flest félög í eitt áÍslandid, en það er staða sem við viljum auðvitað ekki vera í, þannig að það þarf að gætaeinhvers konarr jafnvægis þarna á milli skilvirkni og svo aðhalds á markaði,“ segir Kristrún.
Spurð út í þann 5 milljarða sparnað sem Arion banki sér fyrir sér að geti orðið til við samrunann og hvort slíkir útreikningar kalli ekki á að Íslandsbanki geti tekið frekar til í rekstri sínum og þannig aukið virði bankans segist Kristrún ekki geta tjáð sig um slíkt. Tekur hún þó fram að það sé stjórnenda bankans að hafa alltaf í huga að hámarka virði bankans.