„Þessi maður hefur ekki talað við okkur eitt orð. Við höfum aldrei séð hann. Þetta er allt saman mjög sérstakt, eiginlega ótrúlegt,“ segir Hákon Zimsen, fulltrúi eigenda Stóra-Botns í Hvalfirði.
Stóri-Botn er við hlið Litla-Botns en eins og kom fram í Morgunblaðinu í síðustu viku eru erlendir aðilar með áform um byggingu hótels þar. Hafa þeir boðað byggingu hringlaga hótels og gert er ráð fyrir gistingu fyrir allt að 200 gesti á hóteli og í minni gestahúsum ásamt veitingarekstri, náttúruböðum, útivist og annarri ferðatengdri þjónustu.
Á jörðinni Stóra-Botni eru Glymur og Glymsgljúfur. Eigendur Stóra-Botns gera alvarlegar athugasemdir við þessi áform og segir Hákon að útilokað sé að umrætt hótel muni nokkurn tímann verða byggt. Þeir benda á að svæðið sem um ræðir sé að öllu leyti á náttúruminjaskrá og njóti að lögum sérstakrar náttúruverndar sem leyfi ekki umræddar framkvæmdir. Þá segja landeigendur að vistkerfi innan þess svæðis sem um ræðir hafi einnig verið skilgreind sem birkiskógur af Náttúrufræðistofnun Íslands, og njóti skógurinn sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Hákon bætir við að náttúruperlan Glymsgljúfur í landi Stóra-Botns sé stórhættuleg ferðamönnum yfir vetrartímann eins og banaslys sem þar varð fyrir tveimur árum vitnar um.
Framkvæmdir á svæðinu eru, skv. 3. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd, óheimilar nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Þá er sambærilega reglu að finna í 3. mgr. 61. sömu laga er varðar birkiskógana sem njóta sérstakrar verndar en óheimilt er að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. „Framkvæmdaaðilinn og Hvalfjarðarsveit hafa gert lítið úr framangreindum atriðum og virðast ætla að keyra málið áfram, án þess að hirða um mikilvæg lögbundin náttúruverndarákvæði eða þá stórauknu lífs- og slysahættu sem vetrarferðamennska á svæðinu hefði óhjákvæmilega í för með sér,“ segir Hákon.
Í athugasemdum sem eigendur Stóra-Botns gerðu við tillögu að breytingu aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar í tengslum við þessa fyrirhuguðu uppbyggingu kom fram að jörðin Stóri-Botn hefði verið í eigu sömu fjölskyldu í meira en 85 ár. Kveðast landeigendur frá upphafi hafa staðið vörð um óspillta náttúru svæðisins. Þeir hafi stuðlað að stórbættu aðgengi ferðamanna um svæðið án þess að spilla umhverfinu með umfangsmikilli eða óþarfri mannvirkjagerð.
„Framkvæmdaaðilinn virðast ætla sér að gera út umfangsmikla ferðaþjónustu af smáum landskika sínum í hagnaðarskyni á landi annarra, án þess að samþykki þeirra landeigenda liggi fyrir. Eins og gefur að skilja fellur slík skipulögð nýting á landi í eigu annarra utan lögvarins almannaréttar.
Þær náttúruperlur sem framkvæmdaaðilinn hyggst hagnýta sér eru, miðað við kynningarefni á hans vegum, á landi Stóra-Botns og er ljóst að framkvæmdaaðilinn ætla sér að gera út viðamikla ferðaþjónustu í gróðatilgangi í óleyfi landeigenda,“ segir Hákon.
Hann segir að landeigendur séu ekki mótfallnir því að svæðið sé aðgengilegt almenningi en öll uppbygging þurfi fyrst og fremst að taka mið af náttúrunni, enda sé það náttúran sem sé aðdráttarafl staðarins, en ekki hótelbyggingar, gróðurhús eða baðlón.
Þá gjalda landeigendur varhug við hugmyndum um aukna vetrarferðamennsku á svæðinu. Þeir segja að straumur ferðamanna hafi stóraukist síðustu ár en þangað komu tæplega 40 þúsund ferðamenn frá apríl til október í fyrra. Gönguleiðinni að Glym hefur verið lokað að vetri til vegna hættulegra aðstæðna sem þar skapast og til að vernda viðkvæma náttúru svæðisins. Á þeim tíma sé svæðið ekki fært öðrum en allra vönustu ferðamönnum. Telja landeigendur að ef bæta eigi við fjölda ferðamanna er gisti á svæðinu muni það leiða til mjög alvarlegrar slysa- og lífshættu þar.