„Hver dagur skiptir máli“

„Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. …
„Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað,“ segir Stefán. mbl.is/Eyþór

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, kallar eftir því að meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði verði opnað á ný.

„Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað,“ sagði hann í ræðustól á Alþingi í dag.

Hann hafi haft annað mál í huga þegar hann sóttist eftir því að komast í störf Alþingis í dag en við lestur á pistli Jóns Gnarr þingmanns Viðreisn­ar, um meðferðarrými og öryggisvistun fyrir ungmenni, hafi hann fundið sig knúinn til að halda áfram með það brýna málefni.

Þakkaði hann Jóni fyrir að hafa vakið athygli á stöðunni, en neyðar­vist­un barna fer nú að hluta til fram á lög­reglu­stöðinni í Flata­hrauni í Hafnar­f­irði.

Varpað var ljósi á aðstæður barnanna á mbl.is fyrir helgi.

Meðferðarúrræðum lokað

Mörgum meðferðarúrræðum hefur verið lokað á síðustu árum, þar á meðal Háholti í Skagafirði.

„Í áraraðir var rekið meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði en forsvarsmenn Barnaverndarstofu tóku ákvörðun árið 2017 um að loka heimilinu og var það gert án samráðs við sveitarfélagið,“ sagði Stefán.

„En sá sem hér stendur var einmitt formaður byggðarráðs sveitarfélagsins á þeim tíma og þekkir málið ágætlega.“

Góður árangur hafi náðst á Háholti

Segir hann góðan árangur hafa náðst á Háholti og sveitarfélagið hafi meðal annars farið í breytingar á húsnæðinu árið 2014, með það fyrir augum að vera með unglinga í öryggisvistun og bregðast þannig við ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Nú stendur húsið þó autt og til stendur að selja það.

„Ég skora á hæstvirtan ráðherra að setja sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélagsins og koma húsnæðinu, sem hefur einmitt verið hannað til þess m.a. að öryggisvista unglinga, aftur í notkun og leysa þar með þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í málaflokknum,“ segir Stefán.

Þóttist opna heimili fyrir kosningar

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fyrr­ver­andi barna- og mennta­málaráðherra og flokksbróðir Stefáns, þótt­ist opna meðferðar­heim­ili í Mos­fells­bæ í lok nóv­em­ber, fjór­um dög­um fyr­ir kosn­ing­ar.

Húsnæðið uppfyllir ekki kröfur og því hefur meðferðarheimilið ekki enn verið opnað, mánuðum síðar.

Nú þykir óvíst hvort það verði opnað yfir höfuð.

Barna- og fjöl­skyldu­stofa greiðir því nú rúm­ar tvær og hálfa millj­ón króna á mánuði í leigu fyr­ir hús­næði und­ir meðferðar­heim­ili fyr­ir börn með fjölþætt­an vanda, í staðinn fyr­ir þær 750 þúsund krón­ur sem stóð til að greiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert