Flokkur fólksins sendi Skattinum tilkynningu um breytta skráningu sem stjórnmálasamtök í lok janúar 2024, einmitt þegar verið var að greiða út ríkisstyrki til stjórnmálaflokka. Tilkynningunni var hins vegar verulega ábótavant, svo Skatturinn gerði athugasemdir við hana og leiðbeindi flokknum um úrbætur.
Breyta þyrfti samþykktum, en auk þess hefðu ekki allir stjórnar- og varamenn undirritað tilkynninguna, aðeins níu í stað tólf. Aðeins þessara níu er getið á vef flokksins, ári síðar.
Baldvin Örn Ólason, verkefnastjóri hjá flokknum og sonur Ingu Sæland, formanns hans, átti í bréfaskriftum við Skattinn vegna þessa og sagði að úr þessu yrði bætt eftir breytingar á flokkssamþykktum á landsfundi, sem haldinn yrði „bráðlega“. Hann hefur enn ekki verið haldinn og ekki hefur verið gerð önnur tilraun til þess að breyta skráningunni.
Þetta kemur fram í svari Skattsins við upplýsingabeiðni um samskipti ríkisskattstjóra og Flokks fólksins og þeim vinnugögnum, sem um ræðir, og Morgunblaðið hefur undir höndum.
Þær upplýsingar stangast mjög á við svör Ingu Sæland um styrkjamálið á undanförnum vikum, en hún kvaðst hafa verið í góðri trú, enginn hefði flaggað þessum „formgöllum“, engar athugasemdir verið gerðar fyrr en í fyrrahaust, en þá hefði loks verið boðað til landsfundar, sem svo hefði frestast vegna kosninga.
Við það falla helstu röksemdir Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra fyrir því að Flokki fólksins beri ekki að endurgreiða 240 milljónir kr. vegna ofgreiddra ríkisstyrkja. Hann tilfærði þar helst góða trú flokksins, þó að Inga hefði gengist við að hafa vitað betur, en einnig að ríkisvaldið hefði brugðist leiðbeiningarskyldu sinni, sem nú hefur reynst rangt.
Morgunblaðið lagði spurningar um málið fyrir Ingu Sæland í gærdag, en hún hafði enn ekki svarað þegar blaðið fór í prentun.