Alls sex svæði á landinu eru nefnd til friðlýsingar til náttúruverndar, samkvæmt tillögu sem lögð hefur verið fram til ályktunar Alþingis. Undir eru svæði sem lagt er til að verði á framkvæmdaáætlun líðandi árs og fram til 2029.
Þetta er tillaga frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og um hana segir að byggja eigi upp net verndarsvæða í því skyni að stuðla að vernd líf- og jarðfræðilegrar fjölbreytni. Mörg svæði hafa verið friðlýst á undanförnum árum og nú heldur sú vegferð áfram, skv. tillögunni sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda. Frestur til að skila inn umsögnum er til 20. febrúar.
Þau svæði sem eru undir í áætluninni eru um allt land. Fyrst skal tiltekinn Goðdalur í Bjarnarfirði á Ströndum. Svæðið er tilnefnt vegna móa- og mýrahveravistar svo og jarðhitalækja. „Þar sem jarðhitinn er vex æðplöntutegundin naðurtunga, sem einungis þrífst við jarðhita hér á landi, auk þess sem laugadepla, sem er válistategund í nokkurri hættu, hefur fundist í heitum uppsprettum,“ segir í kynningu.
Nokkur sömu atriði gilda um Goðdal og Hengladali á Hellisheiði. Þar, á 10 km² svæði, eru kraumandi hverir með sérstakar vistgerðir og verndargildi jarðhitalækja er hátt. Því er friðlýsing þar í deiglu og tiltekið að styrkja þurfi innviði til að vernda viðkvæm svæði og stýra umferð.
Til stendur sömuleiðis að friðlýsa Húsey og Eyjasel á Úthéraði austur á landi. Undir eru 62 km² á svæði þar sem starargróður og runnar eru áberandi gróður og um loftið sveima skúmur og kjói; fuglategundir í vá. Um Lauffellsmýrar, 56 km² votlendissvæði á hálendinu inn af Kirkjubæjarklaustri og Síðu, segir að rimamýrar þar séu merkilegar. Slíkar einkennast af áberandi mynstri langra rima og forblautra flóalægða og tjarna.
Þá er í umræðu að friðlýsa Lambeyrarkvísl í Hvítársíðu í Borgarfirði og Oddauppsprettur í Húsafelli; hvar eru kaldar lindir. Slíkar hafa hátt verndargildi, en þetta er svæði þar sem grunnvatn streymir út á yfirborðið um uppsprettur, t.d. undan hraunjaðri eða á vatnsbotni. Í ám á þessum slóðum finnast dvergbleikjur og grunnvatnsmarflær.
Síðast í upptalningunni eru Reykjanes og Þorlákshver sem eru við Brúará á landamærum Grímsness- og Bláskógabyggðar. Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0,87 km² og er á lista sakir þess að þar má finna heitar uppsprettur, jarðhitalæki og sjaldgæfar jurtir, svo sem flóajurt og vatnsnafla.
Sú framkvæmdaáætlun sem nú er til kynningar er sú fyrsta sem unnin er frá gildistöku endurskoðaðra laga um náttúruvernd árið 2013. Í umræðu hefur raunar verið að taka fleiri svæði á áætlun friðlýsingar, svo sem Tjörnes og Melrakkasléttu, en frá slíku var horfið meðal annars vegna sjónarmiða landeigenda. Þá réðu þjóðlendumál því að bakkað var með friðlýsingu á Drangey á Skagafirði og á Snæfellsnesi hvar undir voru Löngufjörur, Skarðsfirði og Langárósi að Hjörsey. Sama gildir um Grímsey fyrir norðan land.