Búist er við að hitastig haldi sig víðast hvar yfir frostmarki á landinu í dag. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofunni að lægðasvæði langt suður í hafi nálgist landið í dag.
Áttin verður austlæg eða suðaustlæg, víða verður kaldi en hvassara syðst á landinu. Dálítil rigning eða slydda verður með köflum, en yfirleitt hægari vindur og þurrt að kalla fyrir norðan. Hlýnar í veðri, hiti að tíu stigum syðst, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.
Seint í kvöld bætir í rigningu sunnan til á landinu og er útlit fyrir talsverða rigningu suðaustanlands. Styttir upp vestanlands í fyrramálið, en áfram verða dálitlar skúrir á víð og dreif. Dregur víða úr vindi seinnipartinn á morgun. Hiti verður 5 til 10 stig.