Myndskeið: Kostuleg ræða Jóns vakti kátínu

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisn­ar, sagði farir sínar ekki sléttar í ræðustól Alþingis í dag, eftir að fundið hefði verið að klæðaburði hans í þingsal í gær.

Ræða hans vakti töluverða kátínu í þingsal enda nýi þingmaðurinn þekktur grínisti. Ræðuna má sjá hér að ofan, auk viðbragða forseta Alþingis.

Rifjaði hann upp að hann hefði komið til þingfundar og klæðst jakka að ofanverðu, vesti og skyrtu, en gallabuxum að neðanverðu.

„Og þegar ég var að ganga inn í salinn segir einhver: Heyrðu, þú getur ekki farið í gallabuxum í þingsal. Þingfundur var að hefjast og ég velti fyrir mér: Á ég að hlaupa heim og skipta um buxur eða á ég að fara úr þeim?“ sagði Jón og uppskar hlátur í þingsal.

„Ég afréð að ganga rösklega til sætis og setjast og hafa mig ekkert frammi á fundinum. En svo fór ég að taka eftir að það var fleira fólk í gallabuxum á fundinum og þá slaknaði á mér.“

Afréð að hafa sig ekki í frammi

Jón hélt áfram og sagðist hafa reynt að spyrjast fyrir um klæðareglur.

„Og þær eru engar, ekki nokkrar einustu nema bara eitthvað sem fólki finnst, nema það að körlum er skylt að vera í jökkum. Annað fellur undir almenna snyrtimennsku og smekk.“

Hann hefði svo fengið ávítur frá Bryndísi Haraldsdóttur þingmanni, sem sat í stóli forseta einmitt þegar Jón flutti ræðu sína í dag.

Bryndís var fljót til að svara, eftir að Jón hafði lokið máli sínu, og benti á að hún hefði vissulega ekki ávítt hann.

„Og svo að rétt sé nú haft eftir þá ávítti forseti ekki háttvirtan þingmann heldur kom með kurteislegar ábendingar til þingflokksformanns og forseti notaði jafnframt tækifærið og hrósaði honum fyrir klæðaburðinn í dag,“ sagði Bryndís.

Ræðuna í heild sinni má sjá hér að ofan.

Jón Gnarr á Alþingi í dag.
Jón Gnarr á Alþingi í dag. Skjáskot/Alþingi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert