Orð Ingu Sæland stangast á við gögn

Stjórn Flokks fólksins sendi skattstjóra tilkynningu í janúar á síðasta ári um breytingu á skráningu flokksins úr almennum félagasamtökum í stjórnmálasamtök. Það er lagaskilyrði fyrir því að greiða megi stjórnmálaflokkum opinbera styrki, en eins og fram hefur komið í fréttum Morgunblaðsins hefur flokkurinn þegar fengið 240 milljónir króna úr ríkissjóði í trássi við lög.

Þessi tilkynning var undirrituð af átta stjórnarmönnum og einum varamanni í stjórn flokksins, en þar var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, efst á blaði. Með fylgdu flokkssamþykktir.

Það var Baldvin Örn Ólason, verkefna- og tæknistjóri Flokks fólksins, sem sendi Skattinum tilkynninguna, en hann er sonur Ingu.

Gögnin stangast á við orð Ingu Sæland í nýlegu samtali við Morgunblaðið sem sjá má í myndbandsspilaranum hér fyrir ofan. Þar sagði hún það sem hún kallar „formgalla“ hafa komist upp síðasta haust og það hafi strax átt að bregðast við því á landsfundi.

Landsfundi þeim, sem halda átti í nóvember, var eins og kunnugt er frestað eftir að boðað var til kosninga á síðasta ári. Flokkurinn hefur ekki haldið landsfund frá árinu 2019 en samþykktir flokksins kveða á um að landsfundur skuli haldinn þriðja hvert ár.

Aðalfundur „haldinn bráðlega“

Tilkynningin var móttekin og stimpluð af Skattinum þann 2. febrúar 2024. Líklegt má telja að hún hafi verið send eftir athugasemdir stjórnvalda, því að stjórnarmennirnir undirrituðu hana 24. og 25. janúar, en það árið voru framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði greidd út þann 24. janúar.

Þann 19. febrúar 2024 gerði Skatturinn tvær athugasemdir við tilkynninguna ásamt því að þeim fylgdi ábending um frekari leiðbeiningar í sambandi við stjórnmálasamtök og skráningu þeirra.

Baldvin Örn svaraði 5. mars 2024 og sagði flokkinn ætla að bíða með skráningu „þar til eftir aðalfundinn sem verður haldinn bráðlega“.

Ekki liggur fyrir hvers vegna flokkurinn sá sér ekki fært að boða til landsfundar fyrr en í nóvember, ekki síst í ljósi þess hversu langt er liðið frá síðasta landsfundi eða á sjötta ár.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert