Tveimur dögum áður en eiginkona Páls Steingrímssonar skipstjóra var kölluð til skýrslutöku hjá lögreglu í fyrsta sinn vegna hins svokallaða byrlunarmáls veitti hún lögmanni sínum, Láru V. Júlíusdóttur, skriflegt umboð til þess að afhenda fréttamönnunum Þóru Arnórsdóttur á RÚV og Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni símkort sín. Á þeim eru varðveitt rafræn fótspor sem meðal annars geta upplýst um samskipti í og úr símtækjum.
Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem Þóra Arnórsdóttir hafði farið höndum um símtæki konunnar. Þannig staðfesta sms-skilaboð sem Morgunblaðið birtir í dag að í síðustu viku ágústmánaðar 2021, rúmum mánuði áður en fyrrnefnd skýrslutaka fór fram, fékk Þóra síma konunnar og kom honum í hendurnar á huldumanni sem fréttamaðurinn vildi ekki gefa upp hver væri. Sagði hún verkefni mannsins, sem væri „mjög varkár“, að fara yfir rafræn fótspor símans og kanna meðal annars hvort brotist hefði verið inn í hann.
Þegar umrædd símaafhending átti sér stað virðist sem konan hafi þá þegar verið komin með annað símtæki í hendur sem hún fékk frá Þóru Arnórsdóttur. Um það símtæki, hvítan Nokia-síma, ræðir konan í sms-samskiptum við annað símanúmer sem merkt er ÞAK í símaskrá hennar. Það vísar til símanúmers sem Þóra Arnórsdóttir hafði skráð á Ríkisútvarpið nokkrum dögum áður en eiginkonan muldi svefnlyf út í bjór manns síns og fékk hann til að drekka. Um þá atburði var fjallað í fréttaskýringu hér í blaðinu 13. febrúar síðastliðinn.
Athygli vekur að símanúmerið sem um ræðir er nær alveg eins og símanúmer Páls Steingrímssonar. Þar skeikar raunar aðeins einum tölustaf, hinum síðasta í röðinni.
Í byrlunarmálinu sem hér er fjallað um höfðu nokkrir blaða- og fréttamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum réttarstöðu sakbornings meðan á rannsókn lögreglu stóð. Málið var látið niður falla, meðal annars vegna fyrningarfrests sem leið.
Af gögnunum sem Morgunblaðið fjallar um í dag má glögglega sjá að starfsfólk RÚV var í nánum samskiptum við fyrrverandi samstarfsmann, Aðalstein Kjartansson blaðamann á Stundinni, í tengslum við öflun þeirra gagna sem sótt voru í síma Páls Steingrímssonar. Það var gert meðan hann lá milli heims og helju á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.