Segist hafa saknað umræðu um menntamál í kosningabaráttunni

María Rut Kristinsdóttir þingmaður Viðreisnar.
María Rut Kristinsdóttir þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir menntamálin yfirleitt algjöra afgangsstærð í pólitískri umræðu.

„Ég hélt kannski að það myndi breytast í kosningabaráttunni í fyrra þegar sjálf baráttan var háð í miðju kennaraverkfalli,“ sagði María í ræðustól á Alþingi í dag og gerði málið að umræðuefni í dag­skrárliðnum fyr­ir störf þings­ins.

Þess má geta að samkvæmt Gallup voru menntamál fjórði mikilvægasti málaflokkurinn að mati kjósenda. 

Mestu áhrifavaldar í tilveru barna

María segist hafa saknað þess verulega að rætt væri meira í kosningabaráttunni um málefni barna, menntamál, stöðu kennara, andlega líðan og aðgengi að þjónustu.

„Við eigum að tryggja kennurum betri starfsaðstæður, bætt kjör og meiri virðingu fyrir starfi þeirra,“ segir hún.

„Fjárfesting í menntun er fjárfesting í mannauði og fjárfesting í kennurum er síðan fjárfesting í framtíðinni.“

Bendir hún á að horfast verði í augu við alvarleika stöðunnar og ekki megi gleyma hvers virði öflugir kennarar séu.

„Þeir eru einir mestu áhrifavaldar í tilveru barnanna okkar. Tökum þeim ekki sem sjálfsögðum hlut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert