Sex samtök bænda hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem áform Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að breyta tollflokkun erlendra mjólkurvara eru gagnrýnd.
Gangi áformin eftir segja samtökin að innflutningur gæti aukist verulega og að með því muni hundruð milljóna króna færast frá íslenskum bændum til erlendra bænda og fárra innflutningsfyrirtækja.
Yfirlýsingin er undirrituð af fulltrúum Beint frá býli, Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, Bændasamtökum Íslands, Samtökum smáframleiðenda matvæla, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Samtökum ungra bænda.
Málið snýst um tollflokkun á pitsaosti þar sem ágreiningur hefur verið um tollflokkun hans fyrir dómstólum. Danól ehf. flutti inn pitsaost með íblandaðri jurtaolíu og var hann samkvæmt ráðleggingum starfsmanna tollstjóra hjá Skattinum flokkaður í 21. kafla tollskrárinnar, sem ber ekki tolla. Er það í takti við úrskurð frá árinu 2023 þar sem Alþjóðatollastofnunin (WCO) úrskurðaði, að beiðni ESB, að varan ætti heima í 21. kafla,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.
MS og bændasamtökin hafa hins vegar þrýst á um að osturinn skilgreinist innan 4. kafla tollalaga sem ber háa skatta eða 30%.
Málið fór fyrir Héraðsdóm sem hafnaði kröfu Danóls ehf. og ákvörðun um hina háu tolla stendur sem stendur.
Nú hefur Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hins vegar stigið fram og vill breyta tollflokkun sem gerir það að verkum að mjólkurvörur falla undir 21. kafla og nær tollaleysi.
Í yfirlýsingu hinna ólíku bændasamtaka er gerð athugasemd við það að Daði Már telji þörf á því að fara eftir áliti Alþjóðatollastofnunarinnar í ljósi þess að íslenskir dómstólar hafi komist að annarri niðurstöðu.
Er sérstaklega bent á það að íslensk stjórnvöld hafi á síðasta ári sent erindi á Alþjóðatollastofnunina þar sem tilkynnt var um að íslenska ríkið hygðist fara eftir niðurstöðu íslenskra dómstóla og sagt að þar með hafi málinu verið lokið af hálfu Alþjóðatollastofnunarinnar.
Eins er hnýtt er í frétt á vef Félags atvinnurekenda (FA) þann 14. febrúar sl. kemur fram að Ísland hafi verið sett á „viðskiptahindranalista ESB“.
Er framsetningin sögð villandi.
„Skilgreining ESB á viðskiptahindrunum er pólitískt mótuð að teknu tilliti til hagsmuna þess og hefur ekki lagalega þýðingu gagnvart EES-samningnum,“ segir í tilkynningunni.
„Það er ekki tiltökumál að vera á þessum lista ef a.m.k. 5-10% af mjólkurframleiðslu landsins er undir. Í þessu sambandi kann sú spurning að rísa hvort það hafi einhver neikvæð áhrif að vera á þessum lista. Þar má nefna að Noregur hefur verið á þessum lista ESB í að minnsta kosti 12 ár eftir að hafa hækkað tolla á osta í 277% án þess að það hafi haft neinar afleiðingar fyrir viðskipti landsins við ESB,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þá segir að heildarmarkaður fyrir rifinn ost nemi hundruðum tonna á Íslandi en einnig séu fleiri vörutegundir undir á borð við matreiðslurjóma og hvers konar aðra osta til matargerðar.
Eins eru þau sjónarmið uppi að búvörusamningum stafi ógn af þessari ráðstöfun.
„Þá vekur mál þetta einnig upp spurningar um forsendur búvörusamninga en svo róttækar breytingar á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslu ganga gegn markmiðum gildandi búvörusamninga, svo og markmiðum búvörulaga. Í raun má telja að umrædd breyting á tollalögum muni að óbreyttu fela í sér algeran forsendubrest fyrir mjólkurframleiðendur.“
Það vekur því mikla furðu að eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar sé að ganga erinda fárra innflutningsfyrirtækja og veikja um leið samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu og vega að lífsviðurværi íslenskra bænda. Eru þetta sér í lagi alvarleg skilaboð til ungra bænda sem sjá skýrt að verði farið í þessa þróun tollflokkunar landbúnaðarafurða muni hún fljótt breiðast yfir fleiri landbúnaðarsvið, sem gerir framtíðarhorfur þessarar þjóðhagslega mikilvægu atvinnugreinar afar svartar.
Að lokum er óskað eftir fundi með fjármála- og efnahagsráðherra.