Svarar fyrir gagnrýni á kolefnisskógrækt

Ísland er að ráðast í mikla skógrækt til að vinna gegn losun og binda kolefni. Stofnunin Land og skógur stýrir verkefninu og að undanförnu hafa komið fram gagnrýnisraddir á þessi áform. Ágúst Sigurðsson, forstjóri LOGS ræddi þessa gagnrýni í Dagmálum Morgunblaðsins í dag.

Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor í landnýtingu var gestur Dagmála í síðustu viku og gangrýndi hún bæði gullgrafaraæði á þessu sviði og hefur upp efasemdir um að skógrækt í því formi sem hér er áformuð til kolefnisbindingar virki eins og talað hefur verið um.

Sveinn Runólfsson, fyrrum Landgræðslustjóri hefur gagnrýnt áformin harkalega og segir skógrækt til kolefnisbindingar á villigötum. Í grein í Bændablaðinu talaði hann um grænþvottaskógrækt og hana ætti að stöðva þegar í stað.

„Ég segi bara við Svein eins og alla aðra. Við skulum passa okkur á því að vera með vísindin með okkur og bera virðingu fyrir þeim. Kalla til þá þekkingu sem við höfum og ég held að það hjálpi okkur ekkert í þessari umræðu að vera með mikla palladóma eða stóryrtar yfirlýsingar. Ég held að það sé miklu betra að hafa jafnvægi í þessu og bara ræða þessa hluti og ekki vera að fela neitt í þessu. Heldur bara draga fram hlutina eins og við teljum að þeir séu á hverjum tíma. Það er bara algjörlega gott mál að menn efist um þetta. Eigum við að rækta skóg yfir höfuð? Eigum við að standa í þessu? Eigum við kannski ekki að gera þetta? Ég hef ekki þá skoðun og held að við þurfum skóg og þurfum að græða upp landið okkar,“ sagði Ágúst þegar gagnrýni Sveins var borin undir hann.

Hlustum en ekki endilega sammála

Hann var næst spurður hvort rætt væri við þetta fólk sem hefur gagnrýnt og kallað eftir þeirra sjónarmiðum.

„Ég get bara talað fyrir mig og þá sýn sem ég hef fyrir mína stofnun. Við tölum við alla og reynum að hlusta á allar raddir í þessu. En það er ekki þar með sagt að við séum sammála öllu. Við auðvitað drögum fram okkar rök í málinu og reynum að byggja á því. Tökum inn þá þekkingu sem þetta fólk færir okkur. Vissulega hlustum við á einhverja eins og gamlan Landgræðslustjóra sem er með miklar yfirlýsingar í þessu og skoðum það hvað hann á þá við í þessu. Grænþvottur er þegar verið er að villa um og verið er í raun að falsa. Það er verið að falsa einhver umhverfisáhrif sem að eru ekki. Það viljum við ekki gera. Það eru algerlega hreinar línur. Punkturinn sem ég tek frá Sveini, af því að þú nefnir hann sérstaklega, er hvað það er mikilvægt að við uppfærum þau viðmið sem notum þegar við veljum land til skógræktar og það erum við að gera.“

Margt fleira bera á góma í þættinum, eins og áform um endurheimt votlendis sem aftur er eitthvað sem vegur þungt í loftslagsbókhaldi Íslandi.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert