Málefni barna í viðkvæmri stöðu verða tekin fyrir á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í dag.
Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, kallaði eftir því í gær að málið yrði tekið fyrir á fundi nefndarinnar í ljósi vaxandi umræðu um ofbeldi í grunnskólum.
Var það samþykkt í morgun og verður málið tekið fyrir á fundi í dag.
„Þetta er alla vega komið á dagskrá núna sem ég er bara mjög ánægð með, formaðurinn tók vel í þetta,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.
Umræðan fer vaxandi um ofbeldis- og eineltismál á meðal barna eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá viðvarandi vanda í Breiðholtsskóla fyrir rúmri viku.
Kvartað hefur verið undan litlum viðbrögðum frá skólayfirvöldum í Reykjavík.
Boðað hefur verið til aukafundar á morgun í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar þar sem til umræðu verða ofbeldis- og eineltisvarnir í skóla- og frístundastarfi, að því er fram kemur í fundarboði.