Um tvö prósent Íslands nú viði vaxin

Elstu heimildir herma að Íslandi hafi verið viði vaxið allt þriðjungi landsins á landnámsöld. Í gegnum árhundruð hefur landið tekið stakkaskiptum og var svo komið að einungis eitt prósent landsins taldist viði vaxið.

Hin ríflega ársgamla opinbera stofnun Land og skógur vinnur nú að því markmiði að fimm prósent landsins verði viði vaxið, eða þakið skógi í framtíðinni. Umtalsvert hefur áunnist frá því að staðan var hvað verst. Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og skóga, LOGS segir að í dag sé þetta hlutfall komið upp í tvö prósent af flatarmáli Íslands.

Heildarflatarmál Íslands er 103 þúsund ferkílómetrar. Þegar landið var sem fátækast af trjám var aðeins skóg að finna á ríflega þúsund ferkílómetrum. Sú tala er nú komin í tvö þúsund ferkílómetra og mikil aukning er framundan. Um eitt og hálft prósent eru birkiskógar en ræktaðir skógar taldir þekja um hálft prósent af flatarmáli lands.

Skjólbelti, smíðaviður og kolefnisbinding

Stóra markmiðið til framtíðar er að meira en tvöfalda þetta magn og eins og fyrr segir er horft til hlutfallsins fimm prósent. Þar mun mest muna um ræktaða skóga sem eiga jafnframt að efla kolefnisbindingu og þar með draga úr losun Íslands þegar horft er til loftslagsáhrifa.

Ágúst skiptir markmiðum með skógrækt upp í þrjá flokka, gróflega. Fyrst hafi menn horft til skjólbelta og bæta hér aðstæður. Draumur hafi verið uppi um að geta nýtt við úr skógunum og svo í seinni tíð skógrækt til kolefnisbindingar.

Ágúst er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar bæði skógrækt og landsgræðslu og ekki síst fyrirhugaðar aðgerðir í loftslagsmálum en stofnunin sem hann stýrir ber ábyrgð á þeim hluta loftslagsbókhaldins sem snýr að gróðri og jarðvegi.

Nokkur gagnrýni hefur komið fram á áform um umfangsmikla skógrækt til bindingar kolefnis. Ágúst svarar fyrir þá gagnrýni í þættinum.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn með því að smella á linkinn hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert