„Við erum með of marga ónýta vegi í einhverju slökkvistarfi og erum nýlega búnir að endurgera veginn um Mikladal í Patreksfirði, sem hrundi fyrir nokkrum árum. Það tók tveggja ára fjárveitingu í styrkingum bara í þann kafla og þá gerir maður ekkert annað á meðan,“ segir Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri vestursvæðis Vegagerðarinnar, vegna blæðingar á vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Spurður hvað nákvæmlega gerist þegar vegir fara jafn illa og hefur raungerst, mest á vestursvæðinu bæði í fyrra og nú í ár, svarar Pálmi Þór:
„Það sem gerist er að undirlagið blotnar og frýs síðan. Þegar hlánar, eins og gerðist í miklum rigningum í vetur, kemst vatnið ekki ekki út, þrýstist upp í gegnum klæðninguna og tekur bikið með sér upp þegar þunginn þrýstir á. Í sumum tilfellum eru þetta vegir með ónýtt burðarlag sem er gamalt og niðurbrotið.“
Spurður í framhaldi af þessari lýsingu hvort það sé þá nóg að skipta um klæðningu á vegunum, hvort ekki þurfi líka að skipta um undirlagið, segir Pálmi að það sé það sem þurfi að gera, en þar sem fjármagnið sé takmarkað sé blettað og klætt til að teygja líftímann eins og hægt er.
„Þetta er soldið eins og að mála yfir lekt þak og málningin endist þá bara í smástund þangað til hún hættir að halda.“
Hefðuð þið þurft að grípa fyrr til þungatakmarkana og jafnvel loka vegunum?
„Eftir á að hyggja hefðum við þurft að gera það fyrr, en þetta er fín lína í því að taka mið bæði af umferðinni annars vegar og álagi á vegina hins vegar. Ef eitthvað er þá erum við of hliðholl umferðinni frekar en vegunum. Við megum alveg vera grimmari í að takmarka og jafnvel loka og við hefðum klárlega átt að gera það núna.“
Pálmi segir erfitt að henda reiður á kostnaði vegna skemmdanna. Tjónið á vegunum sé af þeirri stærðargráðu að þetta verði ekki leyst í sumar. Sem dæmi nefnir hann vegi sem lögð var ný klæðning á í fyrrasumar.
„Klæðningar á Bröttubrekku sem voru lagðar síðasta sumar eru stórskemmdar og við erum að reyna að átta okkur á því hvað veldur, því það virðast ekki vera miklar blæðingar þar. Svo virðist vera sem að þegar tjaran er komin á dekkin á þessum stóru bílum þá rífi þeir upp nýju klæðningarnar.“
Fram hefur komið að þungaflutningar hafi mest áhrif á slit veganna og að flutningarnir frá laxeldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum séu gríðarlega miklir. Spurður hvort það hafi komið til tals að laxeldisfyrirtækin nýttu aðra flutningsmöguleika en vegakerfið, þegar vegirnir væru tæpir vegna frosts og bleytu, svarar Pálmi:
„Það er ekki víst að það gangi upp fyrir laxeldisfyrirtækin þar sem verið er að flytja gríðarlega mikil verðmæti beint úr landi á markað um allan heim daginn eftir. Þannig að það myndi ekki ganga að flytja þann farm sjóleiðina og ég er ekki viss um að flugvellirnir fyrir vestan uppfylli skilyrði fyrir slíku vöruflugi, án þess að ég þekki það nákvæmlega.“