„Við erum svo greinilega á rangri leið hér“

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir málefni barna þverpólitískt mál.
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir málefni barna þverpólitískt mál. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, telur það hafa verið mistök að loka meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði og fleiri sambærilegum úrræðum. Þær ákvarðanir hafi verið teknar að illa ígrunduðu máli, og að fyrirætlanir um önnur úrræði, sem ekki hafi gengið eftir, sé helsta ástæða þess úrræðaleysis sem blasi nú við í málefnum barna og unglinga með fjölþættan vanda.

Þetta kemur fram í færslu sem Jón birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Hann bendir á að Barnaverndarstofa hafi tekið ákvörðun um lokun heimilisins árið 2017, án samráðs við byggðarráð sveitarfélagsins Skagafjarðar, þar sem átti að færa þjónustuna nær höfuðborgarsvæðinu. Húsið er nú til sölu.

Árið 2022 hafi mennta- og barnamálaráðherra svo skipað stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, sem komst að þeirri niðurstöðu að skortur væri á fjölbreyttum úrræðum sem hentuðu ólíkum þörfum barna og mismunandi aðstæðum. Lagt var til að komið yrði á fót sambærilegum úrræðum og var rekið í Háholti.

Spyr hve mörg áföll þurfi

Jón segir þjónustuna í dag hins vegar margfalt verri og dýrari en áður. „Skemmst er að minnast hræðilegra frétta frá Stuðlum og nú nýverið að börn séu nú vistuð í fangaklefum.“

Fjallað var um málið á mbl.is fyrir helgi, en þar kom fram að börn allt niður í 13 ára væru neyðarvistuð á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, vegna úrræðaleysis.

„Við erum svo greinilega á rangri leið hér. Getum við sem samfélag nú ekki tekið höndum saman og greitt úr þessum vanda? Hvað þarf mörg áföll svo við vöknum til meðvitundar? Þetta er vissulega flókið mál en þetta eru samt ekki svo mörg börn. Þetta er mjög gerlegt. Og oft þarf minna til en við kannski höldum.“

„Hagfræði andskotans“

Hann segist hafa fundað með fjölda fólks sem starfar í velferðarmálum barna og ætli að funda með bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ í vikunni. Lausnin byggist á samvinnu ríkis og sveitarfélaga ásamt frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja. Fjárfesta þurfi í Stuðlum og endurvekja langtímaúrræði eins og Háholt.

„Vissulega er kostnaður. Stofnkostnaður og rekstrar. En vandinn er þegar til staðar. Við getum ekki látið barn þjást og talið okkur trú um að í því felist einhvers konar sparnaður. Það er hagfræði andskotans og bakreikningurinn verður þungur. Aðgerðir í málefnum okkar verst stöddu barna er sparnaðaraðgerð því þau eru nú þegar að kosta samfélagið mikið og verða fyrir ómetanlegum skaða,“ segir Jón.

Hagur allra að bregðast við

„Við getum valið um að aðstoða börn til að verða ábyrgir og gegnir einstaklingar sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ef við gerum það ekki eigum við á hættu að hér vaxi upp fólk sem er fjárhagsleg byrði fyrir samfélagið og stafar jafnvel hætta af, veldur tjóni, ótta og jafnvel líkamsskaða.“

Þá segir Jón einnig þurfa að styrkja forvarnir. taka aftur upp íslenska forvarnarmódelið sem gjörbreytt hafi unglingamenningu hér á landi, en nú virðist gleymt og grafið. Þá vill hann endurvekja forvarnadeild lögreglunnar.

„Málefni barna eru þverpólitískt mál. Fíkn, ofbeldi, geð- og taugaraskanir fara ekki í manngreiningaálit. Það er hagur okkar allra að bregðast við. Við getum gert betur. Við erum að fara vitlausa leið hér. Viðurkennum það. Snúum við og gerum svo eitthvað.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert