Hagavatnsvirkjun ehf. áformar að reisa 9,9 MW vatnsaflsvirkjun við Hagavatn, sunnan Langjökuls í Bláskógabyggð. Unnið er að frumhönnun virkjunarinnar sem hlotið hefur heitið Hagavatnsvirkjun og hefur félagið nú lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar í skipulagsgátt.
Áhugi hefur verið á því um árabil að virkja við Hagavatn en greint var frá því í Morgunblaðinu á árinu 2019 að ákveðið hefði verið að stefna að byggingu 9,9 MW virkjunar í stað 18 MW virkjunar sem áður var áformað. Hefur það verið talinn umhverfisvænni kostur.
„Með endurheimt Hagavatns er vonast til að gróðurþekja aukist og að svifryksmengun minnki með bættum lífsgæðum á svæðinu og í byggð, einkum í uppsveitum Árnessýslu. Tilgangurinn með virkjun Hagavatns er að samþætta þennan vænta umhverfislega ávinning af stækkun vatnsins og þau verðmæti sem skapast með virkjun fallsins úr vatninu,“ segir í umhverfismatsskýrslu sem COWI vann fyrir Hagavatnsvirkjun ehf.
Hagavatn er 4-5 ferkílómetra stöðuvatn við rætur Langjökuls. Eftir hlaup úr Hagavatni árið 1939 minnkaði vatnið úr um 23 í 4 ferkílómetra og hefur verið mikið fok úr gamla vatnsbotninum. Gert er ráð fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi Bláskógabyggðar til ársins 2027. Vonast er til að með endurheimt Hagavatns muni gróðurþekja aukast og svifryksmengun minnka. Draga muni úr uppblæstri og sandfoki yfir byggð, mistur minnka og sjást til fjalla á þurrum dögum.
Gert er ráð fyrir því í áformum um byggingu virkjunarinnar að reist verði stífla ofan við núverandi útrás úr vatninu ofan við Nýjafoss, sem mun þá hverfa, og önnur í gömlu útrásinni, að vestan ofan við Leynifoss. „Við Leynifoss er gert ráð fyrir að grafa aðrennslisskurð úr Hagavatni að inntaki virkjunar, sem verður í stíflunni. Gert er ráð fyrir að vatnsborð Hagavatns verði í allt að 455 m y.s. og lónstærð um 23 km²,“ segir í samantekt um framkvæmdirnar.
Í umfjöllun um umhverfisáhrif kemur fram að áætlað er að stækkun Hagavatns muni hafa bein jákvæð áhrif á uppfok svifryks til skamms tíma eða í 10-40 ár. Þar sem innrennsli er í lónið muni aurkeila myndast með tímanum, sem gæti á nýjan leik valdið sandfoki og rykmyndun. „Því er það metið svo að aðstæður á Hagavatnssvæðinu verði mun betri varðandi svifryk til skamms tíma og sambærilegar varðandi sandfok en til lengri tíma litið leikur vafi á að virkjunin muni ná þeim tilgangi að minnka sandfok og rykmyndun.“
Magn svifryks er sá þáttur sem talinn er skipta mestu máli fyrir loftgæði og mestu skipti fyrir almenning að uppfokssvæði svifryks minnki. „Gert er ráð fyrir að virkjunin muni hafa bein jákvæð áhrif á myndun svifryks og óveruleg áhrif á sandfok til skamms tíma en óvíst er hver langtímaáhrifin verða,“ segir m.a. í skýrslunni.
Fram kemur að áætlað er að virkjunin leiði til um 30% fækkunar á komum ferðamanna í núverandi markhópi sem sækir svæðið, eins og það er orðað, en á móti komi að talið sé mjög líklegt að með bættu aðgengi að svæðinu muni heildarfjöldi ferðamanna á Hagavatnssvæðinu margfaldast.
„Hvarf Nýjafoss er talið það neikvæðasta við framkvæmdina fyrir ferðaþjónustu og útivist en áfram verður hægt að skoða gljúfrið þó stífla verði komin ofan við það sem muni breyta upplifun ferðamanna af gljúfrinu,“ segir í umfjölluninni. Stíflan við Nýjafoss á að verða um 250 metra löng og mesta hæð hennar um 25 metrar.