Binda mestar vonir við Kristrúnu en minnstar við Ingu

Kristrún Frostasdóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, félagsmálaráðherra …
Kristrún Frostasdóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, félagsmálaráðherra og formaður Flokks fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór

Landsmenn gera mestar væntingar til Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, ef marka má nýja könnun sem Maskína hefur birt. Landsmenn gera minnstar væntingar til Ingu Sæland, félagsmálaráðherra og formanns Flokks fólksins.

Spurt var: „Hvaða ráðherra hefur þú mestu/minnstu væntingar til á komandi kjörtímabili?“

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er hópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 12. til 17. febrúar 2025 og voru svarendur 1.511 talsins.

Kristrún í sérflokki

Alls sögðust 36,7% gera mestar væntingar til Kristrúnar en aðeins 3,7% gera minnstar væntingar til hennar.

Grafík/Maskína

Aðrir ráðherrar koma þarna í knapp á eftir Kristrúnu þegar litið er til mestra væntinga. Næst á eftir kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, með 11,7%, Alma D. Möller heilbrigðisráðherra með 11,2%, Inga Sæland með 10% og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra með 9,2%.

Gera minnstar væntingar til ráðherra Flokks fólksins

Athygli vekur, þegar litið er til svara fólks varðandi hvaða ráðherra það hafi minnstar væntingar til að Inga Sæland er þar efst með 33,1%. Flokksfélagar hennar í Flokki fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir menntamálaráðherra og Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra, koma næst á eftir með 12,5% og 12,3%. Þar á eftir kemur Logi Einarsson með 11,1%.

Grafík/Maskína

Ef horft er til ríkisstjórnarflokkanna þriggja þá gera flestir mestar væntingar til Samfylkingarinnar eða 54,8%. Næst á eftir kemur Viðreisn með 30,2% og þá Flokkur fólksins með 15,1%.

Meirihluti svarenda gerir minnstar væntingar til Flokks fólksins eða 58%. Þá kemur Samfylkingin með 29,1% og loks Viðreisn með 12,9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert